Tuttugu tíma barátta fyrir lífi hunds: Hvernig er þjónusta við dýraeigendur á Austurlandi?

hundur.jpg
Fleiri tíma getur tekið að ná í dýralækna á Austurlandi í bráðatilfellum. Tækjabúnaður þeirra er að auki af skornum skammti. Austfirskur hundaeigandi spyr hvernig hægt sé að bæta dýralæknaþjónustu á landsbyggðinni þannig aðrir þurfi ekki að ganga í gegnum það sem hann reyndi í lok síðasta árs.

„Í kjölfar þessa ömurlega atburðar spyr ég mig hvort þetta sé það sem dýraeigendur þurfa að búa við utan höfuðborgarsvæðisins? Hver er ábyrgur fyrir málum sem þessum og hvað er hægt að gera til að bæta dýralæknaþjónustu við landsbyggðarfólk? Fyrir mér er þetta dýraníð af verri sortinni,“ skrifar Gísli V. Gunnarsson, húsasmiður á Eskifirði í aðsendri grein undir yfirskriftinni „Hvað er dýraníð?“ í Fréttablaðinu.

Þar rekur hann baráttu sína fyrir því að bjarga lífi annars tveggja Schäfer-hunda sinna í desember var. Sá veiktist hastarlega um eftir kvöldmat á fimmtudegi og þurfti snarlega að komast undir læknishendur. „Byrjaði þar með 20 klukkustunda martröð þar sem ég fékk tvo aðila til að hjálpa mér við að hafa uppi á dýralækni og hvarflaði ekki að mér að það gæti orðið vandamál.“

Vakthafandi dýralæknir á Austurlandi þetta kvöld var á Vopnafirði. Þar segist Gísli litla þjónustu hafa fengið, dýralæknirinn hafi sagst lítið geta gert nema vísa honum áfram á Akureyri. Hann segist hafa eytt næstu tveimur tímum í að hringja í aðra dýralækna á svæðinu en ekki haft erindi sem erfiði.

Það var loks Hákon Hansson á Breiðdalsvík sem svaraði á tólfta tímanum. Hann gat gefið hundinum verkjastillandi og róandi lyf en ekki var hægt að skoða dýrið nánar þar sem ekki var til röntgentæki í fjórðungnum. Hundurinn var loks sendur með flugi til Reykjavíkur morguninn eftir þar sem hann dó síðar um daginn á skurðarborðinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.