„Fannst þetta óttalega þurrt eitthvað hjá rektornum“

„Mér fannst þetta óttalega þurrt eitthvað hjá rektornum og hann svarar í raun engu þannig fannst mér,“ segir Agnes Klara Ben Jónsdóttir, um viðbrögð rektors Háskóla Íslands vegna áskorunar um bætt aðgengi að skólanum gegnum fjarnám.

Austurfrétt birti í gær viðbrögð Jóns Atla Benediktssonar, háskólarektors, við harðri gagnrýni á slæmt aðgengi að námi í skólanum fyrir fólki úti á landi.

Fullyrða má að margir deila þeirri gagnrýni því yfir þrjú þúsund manns hafa þegar skrifað undir sérstakan áskorunarlista um snarbætt aðgengi sem Agnes og Stefanía Hrund Guðmundsdóttir settu upp á vefnum Change.org í byrjun mánaðarins.

„Það er alveg frábær þátttaka og það er enn að bætast við daglega. Það mjög greinilegt að fleiri en við tvær hafa lent á vegg þegar hugmyndin var að mennta sig í Háskóla Íslands. Við erum líka báðar að fá alls kyns hrós og klapp á bakið frá hinum og þessum og meira að segja frá ókunnu fólki sem hefur sent okkur póst og skeyti. Enda er eitthvað mikið bogið við að Háskóli Íslands sé 20 árum á eftir Háskólanum á Akureyri með fjarkennslu.“

Agnes segir að listinn verði uppi áfram og hugmyndin sé að bíða myndunar nýrrar ríkisstjórnar áður en hann verður afhentur nýjum menntamálaráðherra. „Svo verða vonandi einhver viðbrögð til batnaðar í kjölfarið. Það getur ekki verið hugmyndin að landsbyggðarfólk þurfi eilíft að hafa miklu meira fyrir háskólanámi en fólk á suðvesturhorninu.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.