Orkumálinn 2024

Túlkar árangurinn sem ákall um náttúruvernd

Vinstrihreyfingin – grænt framboð bætti við sig fulltrúa í sveitarstjórn Múlaþings í kosningunum á laugardag. Aðeins í tveimur sveitarfélögum á landsvísu náði flokkurinn þeim árangri.

„Ég er mjög ánægður með niðurstöðurnar því aðeins hér og í Norðurþingi bætir VG við sig,“ segir Helgi Hlynur Ásgrímsson, oddviti VG í Múlaþingi.

Hann segir fólkið að baki framboðinu hafa farið bjartsýnt inn í kosningabaráttuna því það átti næsta manninn í kosningunum 2020 og vantaði innan við 30 atkvæði í viðbót til þess. En laugardagurinn var VG ekki gjöfull og tölurnar, þar til kom að Múlaþingi á þriðja tímanum almennt ekki glæsilegar.

„Þegar tölur að berast annars staðar frá og við sáum að flokknum gekk illa bjuggum við okkur þó undir að okkur myndi ekki takast að bæta við okkur öðrum fulltrúanum.“

Hann býst við að innan flokksins verði lagst yfir hvað þurfi að gera til að ná betri árangri næst. „Það er rýni víða í gangi. Mér sýnist samt að fólk vilji ekki pólitík, það kýs bara Framsókn.“

Hægt að nota skipulagsvald á landi

Aðspurður um forgangsmál nýrrar sveitarstjórnar nefnir Helgi Hlynur að strax þurfi að hefja vinnu við nýtt aðalskipulag og síðan koma byggingu íbúðahúsnæðis í gang. Umhverfismál telur hann þó lykilinn að árangri VG en framboðið fékk um 100 atkvæðum meira en fyrir tveimur árum. „Ég túlka árangurinn sem ákall um náttúruvernd, sem var okkar helsta áherslumál, baráttuna við laxeldi og virkjanir á Hraunasvæðinu.“

VG hefur staðið helst gegn laxeldi í Seyðisfirði meðan aðrir flokkar benda á að sveitarfélagið hafi takmarkað um það að segja því það hefur ekki skipulagsvald úti í firðinum. „Við höfum ýmsar leiðir sem við höfum unnið í til að koma í veg fyrir, fresta eða hægja á. Við höfum skipulagsvaldið á landi og ef við stöndum með íbúum getum við staðið í veginum með að beita því. Það er ekki hægt að afsaka afstöðuleysi sitt svona.

En þar sem við komumst ekki í meirihlutaviðræður þá þurfum við að halda áfram að andæfa. Við (oddvitar framboðanna) hringdumst aðeins á en það var farið beint í þetta (viðræður um áframhaldandi meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks). Úrslitin voru aðeins súrsæt því ég hefði gjarnan viljað að meirihlutinn hefði fallið. Þetta er sá meirihluti sem vinnur að því að koma þeim málum sem við berjumst á móti í gegn.“

En það er fleira sem Helgi Hlynur vakir yfir í maí heldur en pólitíkin. „Fyrsta rollan var borin þegar ég kom heim um nóttina. Þær héldu í sér þar til búið var að telja. Ég er samt ekki með margar kindur, þetta er orðið hálfgert áhugamál hjá mér. Ef ég væri ekki með þær þá væri ég komin á strandveiðar. Ég fer í þær einhvern tíma í júní.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.