Tugir milljarða geta sparast á að losna við jarðefnaeldsneytið

Íslendingar geta sparað tugir milljarða árlega takist þeim að skipta úr jarðefnaeldsneyti í aðra orkugjafa. Forstöðumaður hjá Landsvirkjun segir umbreytinguna vera orðna hraðari en margir bjuggust við.

„Það er frekar að herðast á þessu. Verkefni og tækni sem við héldum að yrðu að veruleika eftir 20 ár eru að flytjast miklu framar,“ sagði Haraldur Hallgrímsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun, á íbúafundi á Reyðarfirði í fyrrakvöld.

Á fundinum voru kynntar hugmyndir sem Landsvirkjun vinnur að, í samvinnu við Fjarðabyggð og danska fjárfestingasjóðinn CIP, um orkugarða á Reyðarfirði. Undirstaðan í þeim væri framleiðsla vetnis eða rafeldsneytis en tækifæri væru að nýta til það sem félli til við hana.

Loftslagsmál eru orkumál

Haraldur reifaði mikla umræðu og áherslu á orkuskipti víða um heim vegna skuldbindinga ríkja um minni losun kolefnis. Hann sagði að loftslagsmál væru í grunninn orkumál og því léki Landsvirkjun lykilhlutverk hérlendis. Fyrirtækið sé sameign þjóðarinnar og það stórt að geta brugðist hratt við og geta unnið með erlendum aðilum, til dæmis CIP.

Í orkuskiptunum felist jafnvel tækifæri á útflutningi eldsneytis. Hann sagði slíka möguleika mikilvæga því auðveldara væri að ráðast í orkuskipti á grundvelli stærðarhagkvæmni.

Haraldur sagði að innan Landsvirkjunar væri einna mest áhersla lögð á vetni í dag, í samræmi við aðgerðaáætlun með orkustefnu Íslands. Þar er talað um að styðja við rafeldsneyti með rannsóknum og uppbyggingu innviða.

50 milljarðar á ári

Hann benti á að í dag flyti Íslendingar inn um 500.000 tonn árlega af jarðefnaeldsneyti í samgöngur á landi og sjó. Fyrir þetta séu borgaðir um 50 milljarðar og um 1.600.000 tonn af koltvísýringu losni út í andrúmsloftið við bruna þess. Tölurnar tvöfaldist sé flugið tekið með.

Hann sagði að ef vel tækist til við orkuskipti til gætu Íslendingar kvatt jarðefnaeldsneytið. Til mikils sé að vinna eins og tölurnar sýna. „Þetta er ofboðslega mikið en við gleymum þessu stundum því þetta hefur verið svo lengi í gangi.“

Flugfélög skikkuð til að nota vistvænt eldsneyti

Haraldur benti á að orkuskiptin yrðu í áföngum. Á næstu tíu árum yrði hagkvæmt að skipta jarðefnaeldsneytinu út í vegasamgöngum. Í kringum 2030 yrði það hagkvæmt í sjávarútvegi og á árabilinu 2030-40 í skipaflutningum og flugi. „Orkuskipti með grænu rafeldsneyti eru raunhæf og spennandi. Það tekur tíma að byggja upp framleiðsluna. Til að framleiða grænt rafeldsneyti þarf græna raforku.“

Sem dæmi um þann hraða sem væri í þróuninni nefndi hann að fyrir nokkrum árum hefði þótt langsótt að flugvélar gengu fyrir öðru en jarðefnaeldsneyti en í Evrópu sé þegar byrjað að skylda flugfélög til að nota vistvænt eldsneyti. Hlutfallið sé ekki hátt en fyrstu skrefin væru tekin.

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, tók undir að þróunin verði hraðari en margir reikni með. Stór skref hafi orðið með Parísarsáttmálanum árið 2015. Hann reikni með að aftur herðist á henni eftir alþjóðlegu loftslagsráðstefnuna sem hefst í Glasgow um næstu mánaðamót.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.