Orkumálinn 2024

Útskrift hjá Stóriðjuskóla Fjarðaáls: Skemmtilegur og fróðlegur tími

storidjuskolinn_web.jpg
Tuttugu og sjö nemendur voru útskrifaðir úr grunnnámi Stóriðjuskóla Fjarðaáls fyrr í mánuðinum. Tilgangur námsins er að auka þekkingu og getu nemenda, sem allir vinna hjá Fjarðaáli, til að takast á við flókin og krefjandi störf í álveri. Stór hluti nemenda hefur þegar skráð sig í framhaldsnám Stóriðjuskólans sem hefst eftir áramót.

Nemendurnir hófu nám haustið 2011 en Stóriðjuskólinn er samvinnuverkefni Fjarðaáls, Verkmenntaskóla Austurlands og Austurbrúar. Námið er þrjár annir og er kennt samkvæmt námskrá frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. 

Meðal þess sem fjallað er um er tölvunotkun, stærðfræði og vélfræði. Á seinni stigum námsins er lögð áhersla á að auka þekkingu á innviðum fyrirtækisins og framleiðsluferlinu sjálfu. Náminu lýkur með lokaverkefni sem nemendur kynntu áður en þeir útskrifuðust í gær.

Alls hófu þrjátíu nemendur námið en tuttugu og sjö luku því sem hlýtur að teljast lágmarksbrottfall. Bergur Aðalsteinsson hélt ræðu fyrir hönd nemenda á útskriftinni sem fram fór í matsal Fjarðaáls. Þar sagði hann meðal annars: 

„Þetta er búið að vera skemmtilegur og fróðlegur tími,“ sagði hann. „Ég þakka það traust sem mér var sýnt með því að hafa verið samþykktur inn sem nemandi í fyrsta Stóriðjuskólann og fá að vera þátttakandi í að móta þetta nám sem nemi.“

Janne Sigurðsson, forstjóri Fjarðaáls, Þórður Júlíusson, skólameistari VA og Karl Sölvi Guðmundsson, framkvæmdastjóri Austurbrúar, ávörpuðu einnig samkomuna. Karl minnti á hversu stórt skref það getur verið fyrir marga að hefja nám ef til vill eftir margra ára hlé. 

„Það var eflaust beygur í mörgum ykkar að taka ákvörðun um að eyða þremur misserum í nám eftir að hafa verið í löngu námshléi. Nú er langt og erfitt ferðalag þekkingarleitar og þroska að baki. Ég er sannfærður um að þegar þið lítið til baka þá gerið þið það með stolti og ánægju sigurvegarans. 

Um leið og ég óska ykkur velfarnaðar á leiðum ykkar hvet ég ykkur til að stefna hátt og láta ekki staðar numið. Verðið allt sem þið getið orðið, það mun færa ykkur gleði og sjálfsöryggi. Ég ber djúpa virðingu fyrir árangri ykkar og þrautseigju. Hver er sinnar gæfu smiður. Haldið áfram að láta drauma ykkar rætast,“ sagði hann.

Ljóst er að þessi áfangi er einungis sá fyrsti hjá mörgum útskriftarnemum því stór hluti þeirra hefur þegar skráð sig í framhaldsnám Stóriðjuskólans sem hefst eftir áramót í húsakynnum Austurbrúar á Reyðarfirði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.