Tryggja að aldraðir einangrist ekki í veirufaraldri

Enn hefur enginn greinst með kórónaveiruna Covid-19 á Austurlandi. Félagsþjónustur sveitarfélaga huga að einangrun aldraðra eftir að samkomubann gekk í gildi í gærmorgun.

Samkvæmt upplýsingum frá almannavarnanefnd Austurlands er enginn smitaður með veiruna og aðeins fjórir í sóttkví í fjórðungnum. Á landsvísu eru 180 smitaðir, sem er vel innan við 1% landsmanna.

Einkenni veikindanna minna helst á flensu með hita, hósta og beinverkjum. Þeim sem finna fyrir slíkum einkennum er bent á að hafa samband við Heilbrigðisstofnun Austurlands í síma 470-3066 á dagvinnutíma en 1700 utan hans, frekar en koma beint á heilsugæslu.

Í gærmorgun gekk í gildi bann við samkomum meira en 100 manns. Þá eru í gildi viðmið um að hafa minnst tveggja metra bil á milli einstaklinga auk þess sem tekið hefur verið fyrir allar heimsóknir á hjúkrunar- og dvalarheimili.

Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi, segir að við slíkar aðstæður þurfi að huga sérstaklega að mögulegri félagslegri einangrun aldraðra. Hann segir að á fundi almannavarnanefndarinnar í gær hafi verið farið yfir viðbrögð til að koma í veg fyrir slíkt.

„Allar sveitarstjórnir á svæðinu vinna að því að tryggja þjónustu við aldraða og Heilbrigðisstofnun Austurlands er einnig með þetta til skoðunar. Við virðumst því í ágætri stöðu.“

Þá hefur verið rætt um aðstoð við aldraða og aðra sem standa höllum fæti við að sækja sér nauðsynjavöru. Félagar í björgunarsveitum hafa boðið fram krafta sína til að koma vörunni til skila.

Stór hluti viðbragðsáætlunar almannavarnanefndar Austurlands hefur snúist um viðbrögð við því ef smitaður farþegi kæmi með Norrænu til Seyðisfjarðar. Fyrir helgi var tilkynnt um að ferjan flytji ekki farþega til landsins frekar í mánuðinum.

Nú hefur verið staðfest að ferjan komi ekki aftur með farþega fyrr en í fyrsta lagi 21. apríl. SMS-sendingum með varúðarorðum á Seyðisfirði hefur því verið hætt. Kristján segir að þótt smit greinist um borði megi hins vegar flytja farm til og frá borði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.