Tré rifna upp með rótum á Reyðarfirði

Gömul og stór tré hafa rifnað upp með rótum á Reyðarfirði í óveðrinu í dag. Íbúar segjast aldrei hafa séð annað eins og lýsa því hvernig vindurinn þeytir upp öllu lauslegu.

„Ég hef búið hér í 33 ár og aldrei séð annað eins. Ég hitti hér björgunarsveitarmann áðan sem er sammála mér,“ segir Gunnar Th. Gunnarsson, íbúi á Reyðarfirði.

Gunnar segist af forvitni hafa farið hring í bænum upp úr hádegi í dag. Þá voru tré farin að rifna þar upp með rótum. „Þetta eru stóreflistré hingað og þangað um bæinn. Á mörkum lóðarinnar hjá mér og nágrannanum er 40-50 ára gömul ösp, um 15 metra há, bol- og krónumikil, mjög falleg. Hún er komin á hliðina, upp að húsi nágrannans. Það er mjög sorglegt að sjá þetta en það er ekkert hægt að gera.

Fjörðurinn minnir helst á rúmsjó. Í einni hviðunni sá ég alls konar drasl koma í uppundir 50-100 metra hæð og fljúga í austur út á sjó. Þetta minnti helst á myndbönd sem maður sér af hvirfilbyljum þar sem þeir fara yfir hús, sprengja þau í tætlur, eiginlega soga þau upp.“

Lögreglan á Austurlandi sendi frá sér tilkynningu um klukkan fjögur þar sem íbúar voru beðnir um að halda sig innandyra og vera alls ekki á ferðinni. Austurfrétt hefur þaðan sagnir af þakplötum á ferðinni og brotnum bílrúðum. Björgunarsveitinni þar hefur borist aðstoð annars staðar úr Fjarðabyggð.

Mjög vont veður er víða á Austfjörðum. „Björgunarsveitarmaðurinn sem ég hitti áðan sagði að það ekkert skárra á Eskifirði, sem er sérstakt. Nú er norðvestanátt og þá er yfirleitt slæmt hér en skárra þar en dæmið snýst síðan við í norðaustanátt. Maður er eiginlega í uppnámi yfir að fylgjast með þessu og veðrið er ekkert að ganga niður.“

Mynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.