Tæplega tvö hundruð tómar íbúðir á Egilsstöðum og Reyðarfirði

Tæplega tvö hundruð íbúðir standa auðar á Reyðarfirði og Egilsstöðum. Flestar íbúðirnar eru byggðar á seinustu fimm árum, nýjar og í fjölbýlishúsum.

 

kaupvangur_web.jpgPressan greinir frá þessu í dag og segir að Íbúðalánasjóður leysi á næstunni til sín fjórar blokkir, sem Fasteignafélag Austurlands byggði, við Melgerði á Reyðarfirði og þrjár við Kaupvang á Egilsstöðum.

Samkvæmt nýrri skýrslu Íbúðalánasjóðs eru um 220 lausar íbúðir á Austurlandi, þar af um 170 á Reyðarfirði og Egilsstöðum. Haft er eftir Hilmari Gunnlaugssyni, fasteignasala á Egilsstöðum, að menn hafi byggt hraðar en þeir gátu selt. Leigjendur á Austurlandi hafi undanförnu fært sig úr dýrari íbúðum í ódýrari. Ódýrt lánsmagn ýtti undir byggingagleðina.

„Nokkur verktakafyrirtæki á svæðinu hafa á síðustu árum orðið gjaldþrota sökum þess að þau byggðu hraðar en þau seldu og réðu ekki við birgðasöfnun og fjármagnskostnað. Þegar menn hafa aðgang að endalausu lánsfé þar sem lítil eða engin persónuleg ábyrgð hvílir á bak við, þá er hagnaðurinn einkavæddur en tapið ríkisvætt. Hagnaðarvon er vissulega drifkraftur framfara á mörgum sviðum, en vonandi höfum við lært að slíkri von verður að fylgja ábyrgð.“

Í frétt Pressunnar er einnig bent á að um 500 manns vanti upp á að spár um íbúafjölda hafi gengið eftir.
„Svokölluð ruðningsáhrif álversins voru miklu meiri en reiknað var með. Það var mikið af austfirskum fyrirtækjum, litlum sem stórum, við það að fara á hausinn og á lífi af einskærum vana. Heimafólk hefur farið að vinna í álverinu í miklu meira mæli en áætlað var,“ segir Ævar Dungal, sem einnig starfar sem fasteignasali á Egilsstöðum.

Menn vona samt enn að fólkinu fjölgi. Í skýrslu Íbúðalánasjóðs kemur fram að fyrirtæki í Fjarðabyggð ráðgeri að bæta við sig allt að 150 nýjum starfsmönnum árin 2011 og 2012. Á svæðinu eru enn starfsmenn í tímabundinni vinnu sem leigja lítið húsnæði. Því er spáð að þeir hverfi á braut en framtíðarstarfsmenn komi í þeirra stað.

Bæði Hilmar og Ævar telja mögulegt að nýta íbúðirnar. Hilmar segir tjón Íbúðalánasjóðs, sem lánaði fyrir byggingum, þegar orðið að veruleika og þar verði fljótt að taka erfiða ákvörðun um óumflýjanlegar afskriftir. Fasteignasalarnir benda á að fara verði farlega til að skaða ekki fasteignamarkaðinn eystra. „Söluferli er vandmeðfarið. Það er stórhættulegt að koma með allar þessar íbúðir inn á markað á undirverði, eða selja bara til að selja og fá bara eitthvað verð,“ segir Ævar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.