Tour de Ormurinn fer fram á laugardag

„Undirbúningur er á lokametrunum og allt gengur þetta þokkalega ef frá er talið að það gengur heldur illa að finna sjálfboðaliða til aðstoðar,“ segir Halldór Bjarki Guðmundsson, einn aðstandenda hjólreiðakeppninnar Tour de Ormurinn.

Keppin sú, sem er á vegum Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands auk Múlaþings, verður á laugardaginn kemur haldin í níunda skiptið og þar sem fyrr hægt að keppa á tveimur mismunandi hjólaleiðum. Annars vegar 68 kílómetra leið umhverfis Löginn en hins vegar 103 kílómetra langa leið þar sem Fljótsdalur bætist við hringleiðina.

Töluverður fjöldi hefur skráð sig til þáttöku í þetta skipti að sögn Halldórs en auk einstaklingskeppni fer einnig fram liðakeppni á sama tíma.

Halldór segir vonir standa til að á næsta ári geti mögulega Tour de Ormurinn komist í hóp þeirra hjólreiðakeppna sem heyra til Íslandsmóts í greininni.

„Það er smá kafli í Fellum sem verið er að leggja bundið slitlag á veginn en því verki á að ljúka í næsta mánuði minnir mig. Þegar því er lokið er öll leiðin í Tour de Ormurinn klædd sem er krafa þegar kemur að Íslandsmótinu. Það væri gaman að komast í það og myndi koma þessari keppni mun betur á stall en nú er.“

Eins og áður er bæði rás- og endamark á Egilsstöðum og mega vegfarendur búast við einhverjum lokunum og töfum vegna þess.

Ef Tour de Ormurinn hefði ekki verið aflýst 2020 vegna samkomutakmarkana væri keppnin að halda upp á tíu ára afmælið á laugardaginn kemur. Mynd TourdeOrmurinn

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.