Orkumálinn 2024

Tónspil í Neskaupstað lokar hinsta sinni

„Það tekur allt enda í lífinu en tilfinningarnar eru vissulega mjög blendnar hjá mér nú eftir að hafa lokað dyrunum hinsta sinni,“ segir Pjetur S. Hallgrímsson, eigandi Tónspils í Neskaupstað.

Þessi landsfræga tónlistarverslun sem rekin hefur verið af Pjetri um 36 ára skeið og margir kalla hreint og beint stofnun í tónlistarheiminum hefur nú verið lokað í síðasta sinn.

Í dag var allra síðasti opnunardagur og segir Pjetur að síðustu dagana hafa salan verið afar góð enda miklir afslættir í gangi til að reyna að losa eins mikinn lager og hægt var. Hann hefur nú tíu daga til að losa húsnæðið að Hafnarbraut 22 en frá júní verður það nýtt undir æfinga- og félagsstarf tónlistarfólks í Neskaupstað.

Austurfrétt náði tali af Pjetri rétt eftir lokun og auðheyrt var að þetta var honum erfið stund þó salan undanfarið hefði verið góð.

„Salan hefur verið afar fín síðustu dagana enda varð ég að losna við eins mikið af miklum lager og ég gat en sit engu að síður uppi með töluverðan stafla að alls kyns efni. Þar á meðal mikið af efni sem ég hefði haldið að safnarar hefðu áhuga á en seldist ekki. Ég sé ekki annað í stöðunni en fara með það sem eftir stendur bara heim til mín og geyma það þar en ég reyni að selja þetta gegnum netið í staðinn.“

Sjálfur ætlar Pjetur nú að fara að vinna í heilsunni og njóta þess að vera á eftirlaunum eins og hægt er en hann greindist með Parkinson-sjúkdóminn á síðasta ári og segir það ekkert hjálpa til.

„Það þarf að glíma við þann fjanda auk annars en kannski gengur sú barátta betur þegar ekki þarf að hafa áhyggjur af rekstrinum lengur.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.