Tók allt verknámið frá dönskum landbúnaðarskóla á Vopnafirði

Hin danska Nina van Amerongen hefur nýlokið verknámi sínu við félagsbúið Engihlíð í Vopnafirði þrátt fyrir að vera að útskrifast frá dönskum landbúnaðarskóla. Hún segir Ísland hafa veitt sér frelsi sem hún hafi ekki fundið í Danmörku og hún finni það sama á dýrunum.


„Ég kom fyrst hingað í júlí 2013. Ég ætlaði í dýrahjúkrunarfræði en til að fá inngöngu í það þarf maður fyrst að öðlast starfsreynslu. Ég fékk að fara hingað og líkaði vel þannig ég fékk að koma hingað aftur í verknámið.“

Nina var þá á Vopnafirði í hálft ár, starfaði síðan á sunnlensku hestabúi í átta mánuði áður en hún kom aftur í haustverkin á Vopnafirði. Síðustu tvö sumur hefur hún einnig unnið þar.

Dvölin hefur líka haft áhrif á námið hennar. Hún fór ekki í hjúkrunarfræðin eins og hún ætlaði heldur búvísindanám og gerði lokaverkefnið sitt um minka sem hún kynntist í störfum sínum fyrir félagsbúið.

Tengsl í gegnum mömmu

Tengslin við Engihlíð öðlaðist Nina í gegnum móður sína sem hafði unnið með Else Möller, bónda, fyrir ótal árum.

„Mamma lagði fyrst til við mig að ég færi hingað fyrir tíu árum en ég var ekki spennt fyrir því þá. Þær höfðu misst sambandið en þegar hugmyndin kom aftur fann mamma Else á Facebook og spurði hana hvort þau tækju enn ungt fólk til vinnu. Ég sendi umsókn og var ráðin.“

Nina segir fyrstu mánuðina hafa verið erfiða þegar hún skyldi ekkert í íslenskunni og þekkti enga. Á sláturtíðinni komu hins vegar erlendir farandverkamenn, Danir, til starfa í sláturhúsinu. Einn þeirra var Dani sem áður hafði starfað hjá Engihlíð og hafa þau Nina verið í sambandi síðan.

Ekki bara númer

Eftir það varð auðveldara að vera á Íslandi. „Hér fann ég í fyrsta sinn á ævinni pláss til að vera algjörlega ég sjálf og frjáls. Ég finn líka að ég er góð í því sem ég geri því ég næ góðu sambandi við dýrin.

Mér finnst íslensku dýrin fá meira pláss og frelsi en þau dönsku. Hér snýst ekki búskapurinn jafn eindregið um framleiðsluna. Kýrnar hafa líka nafn en ekki bara númer.“

Nina hefur verið við verknámið síðan í byrjun febrúar en því er nú lokið og hún heldur heim eftir helgina. Hún segist ekki vita hvað hún taki sér næst fyrir hendur.

„Vonandi get ég sannfært kærastann minn um að flytja hingað. Hann þekkir staðinn og veit hvað mér líður vel hér. Ég veit við erum fjærri fjölskyldum okkar en það tekur bara þrjá tíma að fljúga til Danmerkur og svo höfum við Facebook og Skype. Ef það gengur ekki þá vonast ég til að finna starf í minkarækt í Danmörku.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar