Tíu smit staðfest tengd skólunum á Reyðarfirði

Tíu af þeim sýnum sem tekin voru eftir að grunur kom upp um Covid-smit í Grunnskóla Reyðarfjarðar í gær hafa reynst jákvæð. Bæði grunnskóli og leikskóli eru lokaðir í dag meðan unnið er að smitrakningu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi.

Smit hafa greinst bæði í grunnskólanum og leikskólanum Lyngholti. Ákvörðun um að loka skólunum er tekin í samráði við smitrakningateymið.

Í dag klukkan 12 verður boðið upp á sýnatöku fyrir bæði starfsfólk og öll börn leikskólans. Mikilvægt er að vera búin að bóka sýnatöku á heilsuvera.is og sýna strikamerki til að sýnatakan gangi hratt og vel fyrir sig. Foreldar bóki einnig fyrir börn sín með sama hætti. Þeir sem þurfa aðstoð er bent á símanúmer heilsugæslunnar, 470-1420.

Aðrir sem óska eftir sýnatöku eru einnig velkomnir. Það á við um systkini, foreldra, ættingja eða aðra sem hafa verið í nánum tengslum við smitaðan einstakling. Allir sem mæta í sýnatöku kl. 12 þurfa þó að vera komnir með strikamerki í símann, það flýtir fyrir afgreiðslu.

Aðgerðastjórn vill hvetja til ýtrustu varkárni í ljósi aðstæðna. Nú er ljóst að mikill fjöldi smita hefur greinst og því mikilvægt að ná að kortleggja smitin og hefta útbreiðslu sem fyrst.

Mikilvægt er að mæta ekki til vinnu ef einkenni gera vart við sig, halda sig þá heima og bóka sýnatöku á Heilsuveru. Bíði niðurstöðu heima við og fari áfram að öllu með gát, jafnvel þó niðurstaðan reynist neikvæð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.