Tíu hætt á bæjarskrifstofum Fjarðabyggðar frá ársbyrjun 2022

Tíu starfsmenn hafa látið af störfum á bæjarskrifstofum Fjarðabyggðar frá byrjun árs 2022, allir að eigin frumkvæði. Þar starfa í dag 45 manns. Bæði þar og víðar hjá sveitarfélaginu hefur verið erfiður starfsandi um árabil.

Þetta kemur fram í svörum Fjarðabyggðar við fyrirspurnum Austurfréttar. Mannlíf hefur að undanförnu fjallað um erfið samskipti og starfsmannaveltu hjá sveitarfélaginu.

Austurfrétt hefur um nokkurt skeið haft heimildir um óánægju og erfið samskipti á bæjarskrifstofunum en líka undirstofnunum. Dæmi um slíkt voru eineltismál sem komu upp hjá slökkviliði Fjarðabyggðar. Þar var meintum geranda sagt upp störfum. Sveitarfélagið var síðar dæmt bótaskylt fyrir ólögmæta uppsögn.

Stundum beinist óánægjan gegn ákveðnum lykilstjórnendum, í öðrum tilfellum eru deilur milli samstarfsfólks. Í einhverjum tilfellum virðist hreinlega um ættarerjur að ræða. Óánægjan er ekki alltaf ný, hefur jafnvel kraumað í áraraðir undir að minnsta kosti síðustu þremur bæjarstjórum.

Ríflega 20% starfsmannavelta á bæjarskrifstofunum


Samkvæmt svari Fjarðabyggðar liggja ekki fyrir tölur um starfsmannaveltu hjá sveitarfélaginu á síðasta ári. Þar starfa 584 einstaklingar. Hins vegar hafa tíu starfsmenn hætt á bæjarskrifstofunum síðan í ársbyrjun 2022, allir að eigin frumkvæði. Þar starfa í dag 45 einstaklingar.

Í svarinu kemur líka fram að fjórir einstaklingar hafi hætt á bæjarskrifstofunum í apríl og maí í fyrra. Starfsmannamálin voru ekki rædd opinberlega á framboðsfundum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar en þau mölluðu í bakgrunni.

Strax í júní voru starfsmannamál til umræðu á fundi bæjarráðs. Samkvæmt svari Fjarðabyggðar lágu engin gögn fyrir þeim fundi heldur var farið yfir breytingar í starfsmannamálum, laus störf hjá sveitarfélaginu og starfsmannaveltu á bæjarskrifstofunum. Engar ákvarðanir voru teknar.

Mælingar ekki sýnt áberandi óánægju


Samkvæmt heimildum Austurfréttar hafa stjórnendur haft augun á starfsmannamálum og móralnum á bæjarskrifstofum í nokkurn tíma en þeirra aðgerðir ekki dugað til að leysa málin. Austurfrétt spurði sérstaklega um hvort á undanförnum átta árum hefði verið gripið til sérstakra ráðstafana vegna starfsanda á bæjarskrifstofunum. Í svarinu segir að vinnustaðagreiningar séu gerðar árlega fyrir alla starfsemi sveitarfélagsins af Gallup sem jafnframt vinnur áfram með þær.

Austurfrétt óskaði eftir niðurstöðum þessara athugana. Í svarinu segir að mælingar á starfsánægju á bæjarskrifstofunni hafi ekki gefið tilefni til sérstakra ráðstafana. Niðurstöður einstakra stofnana eða sviða séu annars ekki gerðar opinberar enda um gögn að ræða sem aðeins eigi við viðkomandi einingar og ætlaðar séu til leiðbeininga um úrbætur á vinnustað.

Þá hafi Fjarðabyggð verið með árlega fræðslu fyrir stjórnendur til að efla þá í starfi til að bæta vinnustaðina. Stjórnendur útfæri síðan fræðslu starfsfólks með ýmsum leiðum eftir því sem hentar innan hverrar stofnunar.

Austurfrétt óskaði eftir upplýsingum um samninga við sálfræðiþjónustu fyrir starfsfólk síðustu átta ár. Í svarinu segir að Fjarðabyggð hafi fengið til sín sérfræðinga vegna starfsmannamála síðustu ár, þar á meðal sálfræðinga sem sinni ýmsum hlutverkum. Meðal annars hefur veitt þjónusta beint til starfsfólks. Austurfrétt óskaði eftir kostnaði eftir sviðum eða málaflokkum en hann liggur ekki fyrir.

Mikil samkeppni um starfsfólk


Bæjarráð Fjarðabyggðar samþykkti í síðustu viku að fá óháðan aðila til að ráðast í stjórnsýsluúttekt. Henni er meðal annars ætlað að koma með tillögur að úrbótaáætlun á starfsumhverfi starfsfólks á bæjarskrifstofu til að auka starfsánægju og minnka starfsmannaveltu. Meðal fyrirspurna Austurfréttar var spurning um hvort bæjarráð eða bæjarstjórn hefði tekið ákvörðun um ráðningar einstakra starfsmanna eða starfslok.

Samkvæmt samþykktum Fjarðabyggðar þá ræður bæjarráð í þau störf sem heyra beint undir bæjarstjóra, að fenginni tillögu bæjarstjóra. Þá ræður ráðið yfirmenn stofnana og fyrirtækja í eigu sveitarfélagsins sem heyra beint undir bæjarstjóra. Stjórnendur ráða í önnur störf. Sveitarfélagið tjáir sig ekki um einstaka starfsmannamál.

Á fundinum í júní ræddi bæjarráð laus störf hjá sveitarfélaginu. Misjafnlega hefur gengið að ráða í þau, enda atvinnuástand í landinu almennt gott. Í síðustu viku rann út framlengdur umsóknarfrestur um starf sviðsstjóra framkvæmda- og umhverfissviðs. Sviðsstjórinn hættir um næstu mánaðamót.

Þá hefur starf sviðsstjóra umhverfissviðs verið laust frá síðasta sumri. Ekki var ráðið í það heldur verður starfið lagt niður formlega með sameiningu framkvæmda- og umhverfissviðs samkvæmt ákvörðun stjórnkerfisnefndar Fjarðabyggðar. Á annan tug starfa eru laus hjá sveitarfélaginu í dag samkvæmt starfavef sveitarfélagsins, meðal annars sumarstörf og auglýsingar með fleiru en einu starfi, svo sem á leikskólum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.