Til lítils að stæra sig af góðum leikskóla ef ekki er starfsfólk

Foreldrar eins árs barna á Reyðarfirði eru ósáttir við að þurfa að aka börnum sínum í leikskóla á Fáskrúðsfirði þar sem ekki hefur tekið að ráða starfsfólk á Reyðarfirði til að hægt sé að taka á móti börnunum. Bæjarstjóri segir allt reynt til að ráða fleira fólk þannig hægt verði að opna nýja deild á leikskólanum þar í vor.

Tíu foreldrar ungra barna á Reyðarfirði skrifa undir bréf sem tekið var fyrir í bæjarráði Fjarðabyggðar á mánudag.

Þar rekja foreldrarnir að fjölskyldur á Reyðarfirði hafi fengið þau skilaboð að ekki sé hægt að taka við eins árs börnum á leikskólanum þar vegna manneklu. Hvorki fáist faglært né ófaglært fólk til starfa auk þess sem ekki séu neinir dagforeldrar þar til starfa.

Hins vegar hafi foreldrar fengið boð um að senda börn sín í leikskólann á Fáskrúðsfirði. Hann sé góður og gildur, en gallinn sé að foreldrarnir missi úr klukkustund í vinnu hvern dag við að skutla og sækja börn sín þangað. Þetta sé forsendubrestur fyrir búsetu barnafjölskyldna á Reyðarfirði.

Kostnaður foreldra þurrkar út lág gjöld

Þá virðist grein Karls Óttars Péturssonar, bæjarstjóra, sem birtist á Vísi í lok janúar, hafa ergt foreldrana. Í greininni rekur Karl Óttar hvernig skólar í Fjarðabyggð komi vel út þegar gjaldskrár séu bornar saman sem og von sé á frekari framförum með fríum skólamáltíðum. Þá kemur hann inn á skólastarfið sjálft sem og að verið sé að stækka skólahúsnæði.

Í bréfi foreldranna segir að þetta séu góð og gildi atriði en til lítils að stæra sig af þegar sveitarfélagið hafi ekki nægt fólk til að taka við börnum. „Lág leikskólagjöld og fríar skólamáltíðir eru til einskis ef ekki er hægt að manna skólana og þessi lágu gjöld vega lítið í samanburði við þann eldsneytiskostnað, atvinnutekjumissi og óþarfa rasks ungra barna sem fjölskyldur á Reyðarfirði þurfa búa við sökum ástandsins í skólamálum,“ segir í bréfinu þar sem skorað er á bæjarstjórn tryggja að áherslurnar í greininni eigi sér stoð í veruleikanum.

Þá er því haldið fram að lítið hafi verið gert til að bregðast við vandanum, hvorki með auglýsingum á störfum eða átaki í mönnun. Hins vegar hafi leikskólakennurum verið veitt aukið svigrúm til náms, en ekki fengist annað fólk í staðinn auk þess sem skólinn megi vart við að fólk fái leyfi frá vinnu til að sækja nám.

Vantar starfsfólk til að opna nýju deildina

Í samtali við Austurfrétt bendir Karl Óttar á að í dag sé full starfsemi í fimm deildum í leikskólanum á Reyðarfirði. Sex starfsmenn séu hins vegar í leyfi vegna náms og veikinda og ráða þyrfti 2-3 starfsmenn í viðbót til að fylla upp í þau skörð.

Í dag eru fimm deildir við leikskólann á Reyðarfirði. Sú sjötta bætist við þegar framkvæmdum við stækkun skólans lýkur. Vonast er til að það gerist í næsta mánuði og deildin verði opnuð fyrir páska. Til þess þarf hins vegar tvo fasta starfsmenn í viðbót og þeir eru ekki í hendi.

Allt reynt sem hægt er

Karl Óttar segir að reynt hafi verið að bregðast við manneklunni með auglýsingum eftir bæði leikskólakennurum og dagforeldrum en þær hafi ekki borið árangur. Þá hafi verið gerð vinnustaðagreining í öllum stofnunum Fjarðabyggðar í byrjun árs sem ætlað sé að leiða í ljós hvernig sé hægt að efla vinnustaðinn. Þá hafi ný jafnlaunaúttekt undirstrikað að Fjarðabyggð fylgi kjarasamningum ítarlega.

Eins ítrekar Karl Óttar að bæjarstjórn Fjarðabyggðar hafi sýnt vilja til að forgangsraða fjármunum í þágu leikskólamála því viðbyggingin á Reyðarfirði sé ein stærsta framkvæmd kjörtímabilsins. Í öðrum leikskólum sveitarfélagsins sé góð mönnun.

En enn er ekki ljóst hvort takist að opna nýju deildina á Reyðarfirði og taka við eins árs börnum þar fyrir páska. „Að sjálfsögðu myndi ég vilja að þessi börn gætu verið á Reyðarfirði og við reynum það sem við getum til þess. Ég get engu lofað en við viljum veita eins góða þjónustu og hægt er.“

Í bókun bæjarráðs er þakkað fyrir ábendingarnar og tekið undir áhyggjum af mönnum leikskólans. Unnið sé að lausn hans. Að öðru leyti er málinu vísað til fræðslunefndar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.