Til hvers er listaverkaráð ef það er ekki nýtt?

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Fjarðabyggðar setja spurningamerki við hvernig staðið var að málum þegar ákveðið var að afþakka tilboð listamannsins Odee um að gefa sveitarfélaginu listaverkið Jötunheima á sundlaugina á Eskifirði. Meirihlutinn vill fara yfir stefnu Fjarðabyggðar um útilistaverk.

Gagnrýni Sjálfstæðisflokksins beindist annars vegar að því að hafnað hefði verið gjöf frá þeim austfirska myndlistarmanni sem sé hvað þekktastur um þessar stundir, hins vegar að menningar- og safnanefnd hefði ekki nýtt sér álit fagráðs á vegum sveitarfélagsins um listaverk.

„Það var mikið haft fyrir að stofna listaverkaráð sem átti að meta einmitt svona tilboð. Menningarnefnd ákveður eins og sjálf að hafna gjöfinni frekar en vísa málinu til ráðsins,“ sagði Jens Garðar Helgason, oddviti Sjálfstæðisflokksins á síðasta fundi bæjarstjórnar.

Byrjendamistök nefndar

Hann benti á að Fjarðabyggð hefði síðustu ár lagt sig fram um að styrkja menningu og listir í sveitarfélaginu, meðal annars með að styrkja aðkomulistamenn. Þess vegna skyti skökku við að hafna gjöf Odees.

Hann spurði á hvaða faglegu forsendum hefði verið ákveðið að hafna gjöfinni og hvort ekki væri hægt að leggja niður listaverkaráðið ef ekki ætti að nýta sér álit þess. Hann kvaðst vonast til að menningarnefndin starfaði ekki með þessum hætti í framtíðinni og um „unggæðingshátt og byrjendamistök“ nýrrar nefndar væri að ræða.

Dýrunn Pála Skaftadóttir, bæjarfulltrúi flokksins, benti á að listaverkaráðið hefði verið stofnað eftir pólitískt rifrildi um listaverk til að koma í veg fyrir að slíkt endurtæki sig. Hún lagði fram bókun á fundi bæjarráðs þar sem hún gagnrýndi ákvörðun nefndarinnar.

Eðlilegt að ný nefnd vilji móta stefnu

Nefndin var samhljóða í afgreiðslu sinni. Fulltrúar meirihlutans í bæjarstjórn sögðu hana hafa viljað skoðað listaverkaeign sveitarfélagsins. „Eins og ég skildi afstöðu nefndarinnar þá vildi hún nýta fjármagnið í að fara yfir þau útilistaverk sem við eigum, sjá ástand þeirra og horfa á þau í heildin. Þegar ráðið hefur ráðið ráðum sínum liggur fyrir stefna.

Það er líka afstaða að vilja taka eignirnar til skoðunar og móta sér stefnu. Það er ekki óeðlilegt á fyrsta fundi nýrrar nefndar.

Listamaðurinn ber engan skaða af en boð hans sýnir stórhlut af hans hálfu og hlýjan hug til sveitarfélagsins. Ég vona að þessi ákvörðun hafi engar sérstakar afleiðingar,“ sagði Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar.

Eydís Ásbjörnsdóttir, oddviti Fjarðalistans, sagði að sú hugmynd hefði verið rædd að halda samkeppni um útlistaverk. Með því yrði fleiri listamönnum hleypt að borðinu. Ekki væri ástæða til að leggja listaverkaráðið niður í ljósi þessa máls.

Í umræðum kom fram að uppsetning verksins kostaði um 600.000 krónur en meðferð málsins hefur tekið nokkurn tíma í nefndum Fjarðabyggðar. Einar Már Sigurðsson, fulltrúi Fjarðalistans. „Það eru ekki mörg mál sem hafa tekið jafn langan tíma. Ég hæli því nýju nefndinni fyrir að geta tekið afstöðu.“

Listamaðurinn Odee bauðst til að gefa Fjarðabyggð eitt verka sinna. Mynd úr safni.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.