Tíðindalaust enn af Austurlandi

Engin verkefni vegna óveðursins, sem nú gengur yfir landið, hafa enn borist inn á borð austfirskra viðbragðsaðila. Ófært er þó orðið milli staða.

„Það er rólegt hér og engin tíðindi borist til okkar,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi.

Vegagerðin lokaði fyrir klukkan sjö í morgun Fjarðarheiði, Möðrudalsöræfum, Vatnsskarði og til suðurs frá Breiðdalsvík en Fagradal klukkan átta. Þæfingsfærð er á öllum fjörðum og stórhríð í Norðfirði. Á Héraði er skafrenningur og hált á vegum.

Skólahald í leik- og grunnskólum á Fljótsdalshéraði var blásið af seinni partinn í gær.

Þetta þýðir þó ekki að Austfirðir séu sloppnir því ekki er von á að veðrið komi yfir svæðið fyrr en eftir klukkan tíu. Ekki er þó búist við að vindstyrkur verði nærri sá sami og annars staðar á landinu.

Spáð er austan 20-28 m/s á Austurlandi og Austfjörðum og talsverðri úrkomu. Búist er við að veðrið gangi fyrr niður inn til landsins en út til fjarða þar sem viðvörunin gildir fram á kvöld.

Lögreglan beinir þeim tilmælum til íbúa að fara varlega og halda sig heima, sé þess kostur.

Mynd úr safni.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.