Þurftu að hemja dúkinn í sundlauginni

Dúkurinn í sundlauginni á Eskifirði var meðal þess sem björgunarsveitarfólk þar þurfti að glíma við í hvassviðrinu sem gekk yfir Austfirði í gær. Litlar skemmdir virðast hafa orðið í þéttbýlunum á Stöðvarfirði og Breiðdalsvík. Talsvert tjón virðist þó hafa orðið inni í Breiðdal.

„Það var eitthvað að gera hjá okkur þótt veðrið hafi alls ekki verið verst hér,“ segir Sævar Þór Skoradal hjá björgunarsveitinni Brimrúnu á Eskifirði.

Helstu verkefnin þar voru að festa þakplötur sem voru að flagna af auk skemmdra rúða. Hemja þurfti rör og tunnur á byggingasvæðum og festa dúkinn í sundlauginni þannig hann færi ekki af stað en viðgerðir standa þar yfir. Eitt útkall kom vegna trés sem var að leggjast á hliðina og annað út af skjólvegg.

„Hér held ég að sé ekki frá neinu að segja,“ segir Bjarni Stefán Vilhjálmsson, verkstjóri hjá Fjarðabyggð á Stöðvarfirði. Það hafi ein og ein ruslatunna færst úr stað en ekkert alvarlegt. Veðrið þar hafi verið skaplegra en víða annars staðar og bæjarbúum tekist vel að ganga frá öllu lauslegu.

Ingólfur Finnsson hjá björgunarsveitinni Einingu á Breiðdalsvík segir að þéttbýlið þar hafi sloppið við óveðrið. Aðra sögu sé hins vegar að segja úr Breiðdal. Austurfrétt hefur þegar greint frá því að gömul fjárhús við Tóarsel og Engihlíð hafi eyðilagst og sömu sögu mun vera að segja af gömlum fjárhúsum í kleif og á Ásunnarstöðum.

Ingólfur óttast að tjónið inni í dal sé meira, enginn þori þangað fyrr en veðrið gangi meira niður. Starfsmenn Rarik, sem fjarlægðu járnplötu sem fauk í spenni við Höskuldsstaði og olli rafmagnsleysi, munu hafa orðið við meira brak á ferðinni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.