Þungt hljóð í Fljótsdælingum vegna nýs frumvarps innviðaráðherra
Samkvæmt nýju frumvarpi innviðaráðherra mun ráðherrann einn síns liðs geta haft frumkvæði að sameininingu allra sveitarfélaga með færri en 250 íbúa verði það að lögum. Hann vill ennfremur ljúka slíkum sameiningum fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar í vor. Þungt hljóð er í Fljótsdælingum vegna málsins.
Nýja frumvarpið til breytinga á sveitarstjórnarlögum var kynnt inn í samráðsgátt stjórnvalda í síðustu viku og verður til umsagnar þar til 13. október. Meginmarkmið breytinganna sagðar vera að styrkja stjórnsýslu sveitarfélaga og efla sveitarstjórnarstigið í heild sinni.
Stóraukið ráðherravald
Meðal þess sem þar kemur fram er að „ef íbúafjöldi sveitarfélags er lægri en 250 þann 1. janúar ár hvert skv. tölum Hagstofu Íslands, skal ráðherra eiga frumkvæði að því að sameina það aðliggjandi sveitarfélagi. Undantekningu frá þessu ákvæði má veita ef sérstakar aðstæður mæla gegn sameiningu að mati ráðherra.“
Málið hefur farið illa niður í fólk í Fljótsdalnum enda enginn almennur vilji þeirra á meðal að sameinast öðrum sveitarfélögum. Síðasta ríkisstjórn var einnig með hugmyndir um sameiningu minni sveitarfélaga og meðal annars hart lagst á Fljótsdælinga að íhuga slíkt. Á þeim tíma hafði ráðherra ekki sjálfur ákvörðunarvaldið eins og nýja frumvarpið mun færa innviðaráðherra gangi það í gegn.
Verið að afnema lýðræðið sjálft
Helgi Gíslason, sveitarstjóri, segir mikla óánægja vegna þessa í hreppnum og segir lítinn vafa leika á að þetta útspil ráðherra muni yfirgnæfa aðrar umræður á næsta sveitarstjórnarfundi.
„Þetta er viðamikið plagg hjá innviðaráðherra og sumt þarna er gott og til bóta að mínu mati. En annað er út í hött og það er gjarnan almennt með svona hætti sem popúlískir flokkir hefja þá göngu að afnema lýðræðið í landinu. Ráðherrann hefur líka sagt að hann sé bara rétt að byrja þessa vegferð. Það verður fyrsta skrefið að sameina sveitarfélög með færri en 250 íbúa en svo ætlar hann að halda áfram og sameina sífellt fjölmennari hreppi.“
Helgi segir óskiljanlegt hvað ráðherra ætli að flýta sér mikið og vísar í markmiðið að ljúka sameiningum eigi síðar en við sveitarstjórnarkosningarnar þann 16. maí á næsta ári.
„Ég átta mig ekki á þessari hraðferð ráðherrans en þetta er stjórnarfrumvarp og ég get bara ekki trúað því sjálfur að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur ætli að samþykkja það að afnema íbúalýðræði í sveitarfélögum. Þetta sagt vera til að styrkja lýðræðið í landinu en hvernig má það vera raunin þegar það er beinlínis verið að taka það af íbúunum í fámennari sveitarfélögunum? Eiga þeir ekki að búa við sama lýðræðið og aðrir? Mér finnst ráðherra setja niður með svona vinnubrögðum.“
Undanþágur endurskoðaðar
Ráðherra verður heimilt að veita sveitarfélögum undanþágu frá sameiningarkröfum samkvæmt frumvarpinu ef sérstakar aðstæður eru til staðar. Skal þá tekið mið af hversu mikið sveitarfélagið sinnir sínum lögbundnu skyldum sjálft, hversu góðar samgöngur séu við sameiningarsveitarfélag og hvort líklegt sé að sameining leiði til hagræðis í rekstri og betri þjónustu.Slíkar undanþágur skal þó endurskoða á fjögurra ára fresti.
Hafi ráðherra frumkvæði að sameiningu getur viðkomandi sveitarstjórn óskað eftir að skipuð verði sérstök heimastjórn í eitt eða tvö kjörtímabil frá sameiningu. Er það undir hæl ráðherra komið hvort fallist verður á slíkt en verði það raunin skal kjósa heimastjórnina í síðasta lagi fjórum mánuðum eftir formlega sameiningu.
Þungt í íbúum
Helgi segir þungt hljóð í öllum þeim íbúum sem heyrt hafa af málinu og ljóst að þetta mál muni taka yfir öll önnur á komandi sveitarstjórnarfundi í næstu viku.
„Ef sameina á Fljótsdal við annað sveitarfélag liggur í hlutarins eðli að það yrði Múlaþing. Það yrði forvitnilegt tvist ef fulltrúar Múlaþings, sem orðnir eru langþreyttir á svikum stjórnvalda, ákveða hugsanlega að hafna slíku á meðan ekki er staðið við eitt né neitt. En við munum bóka vegna þessa og senda inn umsögn geri ég ráð fyrir. Ég tel líka víst að mörg fleiri smærri sveitarfélög geri það hið sama. Við sjáum hvað setur.“