Þrýsta á að fá byggðakvóta til Mjóafjarðar

Bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð róa nú að því öllum árum að tryggja að áfram verði úthlutað byggðakvóta til Mjóafjarðar. Bæjarráð telur hættu á byggðaröskum fái Mjóifjörður ekki kvóta. Engu af hinum almenna byggðakvóta á yfirstandandi fiskveiðiári var úthlutað til staðarins.

Bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð hafa leitað á náðir sjávarútvegsráðuneytisins um aðstoð eftir að engum byggðakvóta var úthlutað til Mjóafjarðar á yfirstandandi fiskveiðiári. Fundað var með ráðherra á miðvikudag en engin svör voru gefin á þeim fundi. Verði svar ráðuneytisins neikvætt verður leitað til Byggðastofnunar. „Þetta hefur ekki verið mikill kvóti en skiptir máli fyrir þær fjölskyldur sem búa í Mjóafirði,“ segir Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri í samtali við vikublaðið Austurgluggann.

Mjóifjörður hefur fengið 15 tonna byggðakvóta úthlutað árlega frá fiskveiðiárinu 2006/7 en þegar sjávarútvegsráðuneytið gaf út byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/18 var engu úthlutað til Mjóafjarðar. Þegar óskað var eftir skýringum þaðan fengust þau svör að forsenda viðmiðunarreglu sem hefði tryggt kvótann í upphafi væri útrunnin.

Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur óskað eftir því að ákvörðunin verði endurskoðuð. Í bréfi ráðsins til ráðuneytisins er lýst yfir áhyggjum af því að röskun verði á atvinnuöryggi á Mjóafirði verði staðnum ekki úthlutað byggðakvóta áfram. Varað er við að brothætt staða sem uppi hafi verið á Mjóafirði verði enn verri. Þá sé megintilgangi byggðakvótans ekki náð og hætt við að ákvörðunin bitni af fullri hörku á samfélaginu þar.

Ráðuneytið bakkar út úr reglubreytingu

Í svari ráðuneytisins er bent á að með orðalagsbreytingum í úthlutunarreglum Fjarðabyggðar sé hægt að koma því í kring að úthluta Mjóafirði 15 tonnum af þeim 139 sem Stöðvarfirði er úthlutað. Fyrir slíku væru fordæmi frá Vestfjörðum. Bæjarráð samþykkti að gera þessar breytingar en þá bárust þau skilaboð úr ráðuneytinu að byggðakvótinn væri bundinn við einstakar hafnir og breytingin því ekki heimil.

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar staðfesti á fundi sínum í síðustu viku reglur um byggðakvóta í sveitarfélaginu sem eru þær sömu og síðustu ár. Þar er meðal annars fallið frá kröfum um að afli sé unninn í sama byggðarlagi og hann er veiddur því engin fiskvinnsla er á Stöðvarfirði. Þá voru einnig samþykkt ákvæði um hvernig kvótanum skuli skipt milli fiskiskipa.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar