Þrýst á um að Fjarðarheiðargöng verði sett í forgang

Sveitarstjórnir bæði Seyðisfjarðar og Fljótsdalshéraðs leggja áherslu á að tryggt verði fjármagn við endurskoðun á samgönguáætlun í haust þannig að sem fyrst verði hægt að ráðast í hönnun Fjarðarheiðarganga.

Bæjarráð Fljótsdalshérað og bæjarstjórn Seyðisfjarðar ályktuðu nýverið um gangaframkvæmdir hvor í sínu lagi auk þess sem bæjarráð staðanna nýttu sameiginlegan fund sinn til að senda frá sér ályktun um málið.

Í þeirri ályktun er því fagnað að niðurstaða starfshóps samgönguráðherra um legu og fyrirkomulag framkvæmda við næstu jarðgöng á Austurlandi liggur fyrir. Niðurstaðan var kynnt um miðjan ágúst en þar er lagt til að byrjað verði á Fjarðarheiðargöngum og síðan haldið áfram til Mjóafjarðar og Norðfjarðar.

Í ályktuninni segir að niðurstaðan sé í fullu samræmi við áherslur sveitarfélaganna á Austurlandi sem ítrekaðar hafi verið í ályktunum aðalfunda Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi.

Sveitarfélögin vænta þess að við afgreiðslu samgönguáætlunar í haust verði tryggt fjármagn til að hefjast handa við hönnun ganganna strax á næsta ári.

Sami tónn er sleginn í bókun bæjarráðs Fljótsdalshéraðs en í henni er bent á að niðurstaða skýrslunnar byggi meðal annars á úttektum fagaðila þar sem horft hafi verið til jarðfræði, veðurfars og samfélagslegra þátta. Bæjarráðið væntir þess að verði fjármagn tryggt til hönnunarinnar verði hægt að hefjast handa við Fjarðarheiðargöng á fyrsta tímabili samgönguáætlunar og hin göngin tvö í beinu framhaldi.

Í bókun bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar segir að ljóst sé að hvorki Seyðisfjörður né Austurland allt, geti lengur beðið eftir samgöngubótum sem hafi veruleg áhrif á atvinnulíf og byggðaþróun, líkt og hringtenging með jarðgöngum myndi gera. Því er skorað á samgönguráðherra og Alþingi að setja Fjarðarheiðargöng í forgang við endurskoðun samgönguáætlunar í haust þannig að hægt verði að halda áfram við undirbúning ganganna árið 2020.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.