Þrjú framboð mælast með fulltrúa í Fjarðabyggð

Meirihluti Framsóknarflokks og Fjarðalista í bæjarstjórn Fjarðabyggðar heldur, samkvæmt niðurstöðu kosningakönnunar Austurfréttar/Austurgluggans. Vinstrihreyfingin – grænt framboð fær ekki kjörinn fulltrúa en vantar ekki mikið upp á.

Þetta sýna fyrstu útreikningar úr kosningakönnuninni sem gerð var á Austurfrétt í síðustu viku. Ríflega 300 svör bárust sem dreifast þokkalega milli aldurshópa og byggðarlaga. Karlar voru þó 55% svarenda.

Í könnuninni mælist Sjálfstæðisflokkurinn stærstur með 31,5% sem gefa myndi framboðinu fjóra fulltrúa en á tvo í dag. Framsóknarflokkurinn er næst stærstur með 24,4% og þrjá fulltrúa en á tvo í dag, Fjarðalistinn fær 18,3% og tvo fulltrúa en hefur fjóra í dag. Vinstrihreyfingin – grænt framboð fær 7,7% en kemur ekki að fulltrúa. Miðflokkurinn á einn fulltrúa en býður ekki fram nú.

Næsti fulltrúi inn væri oddviti Vinstri grænna sem myndi fella út fjórða fulltrúa Sjálfstæðisflokks. Ekki vantar nema eitt atkvæði á framboðið í könnuninni til að það gerist. Talsvert meira þarf til að aðrar breytingar verði.

Rétt er að taka fram og athygli vekur að 17% þeirra sem svara segjast óákveðnir eða ekki ætla að kjósa. Sá hópur stækkar upp í 36% þegar spurt er hvaða framboð væri næst líklegast að fólk kysi. Í þeirri spurningu kemur Fjarðalistinn best út með 21,5%, Sjálfstæðisflokkur fær 18,2%, Framsókn 16,6% og VG 7,8%

Ragnar Sigurðsson nýtur mests trausts af oddvitum flokkanna, fær að meðaltali 3,22 í einkunn að meðaltali, af fimm mögulegum. Það þarf ekki að koma á óvart í ljósi þess að hans flokkur kemur best út úr könnuninni. Næstur er Stefán Þór Eysteinsson, oddviti Fjarðalista með 3,17 og Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri sem leiðir Framsóknarflokkinn 3,11 en þar á eftir Anna Margrét Arnarsdóttir úr Vinstri grænum með 2,5.

Heilbrigðis- og umönnunarmál fá hæstu einkunn þegar spurt er hvaða málefni skipti fólk mestu við val á framboðslista, fá 4,44 af fimm mögulegum. Þar á eftir koma samgöngumál með 4,41, húsnæðismál með 4,36 og fólkið á listanum með 4,35. Menningarmál skora lægst með 3,64.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.