
Þrjú framboð mælast með fulltrúa í Fjarðabyggð
Meirihluti Framsóknarflokks og Fjarðalista í bæjarstjórn Fjarðabyggðar heldur, samkvæmt niðurstöðu kosningakönnunar Austurfréttar/Austurgluggans. Vinstrihreyfingin – grænt framboð fær ekki kjörinn fulltrúa en vantar ekki mikið upp á.Þetta sýna fyrstu útreikningar úr kosningakönnuninni sem gerð var á Austurfrétt í síðustu viku. Ríflega 300 svör bárust sem dreifast þokkalega milli aldurshópa og byggðarlaga. Karlar voru þó 55% svarenda.
Í könnuninni mælist Sjálfstæðisflokkurinn stærstur með 31,5% sem gefa myndi framboðinu fjóra fulltrúa en á tvo í dag. Framsóknarflokkurinn er næst stærstur með 24,4% og þrjá fulltrúa en á tvo í dag, Fjarðalistinn fær 18,3% og tvo fulltrúa en hefur fjóra í dag. Vinstrihreyfingin – grænt framboð fær 7,7% en kemur ekki að fulltrúa. Miðflokkurinn á einn fulltrúa en býður ekki fram nú.
Næsti fulltrúi inn væri oddviti Vinstri grænna sem myndi fella út fjórða fulltrúa Sjálfstæðisflokks. Ekki vantar nema eitt atkvæði á framboðið í könnuninni til að það gerist. Talsvert meira þarf til að aðrar breytingar verði.
Rétt er að taka fram og athygli vekur að 17% þeirra sem svara segjast óákveðnir eða ekki ætla að kjósa. Sá hópur stækkar upp í 36% þegar spurt er hvaða framboð væri næst líklegast að fólk kysi. Í þeirri spurningu kemur Fjarðalistinn best út með 21,5%, Sjálfstæðisflokkur fær 18,2%, Framsókn 16,6% og VG 7,8%
Ragnar Sigurðsson nýtur mests trausts af oddvitum flokkanna, fær að meðaltali 3,22 í einkunn að meðaltali, af fimm mögulegum. Það þarf ekki að koma á óvart í ljósi þess að hans flokkur kemur best út úr könnuninni. Næstur er Stefán Þór Eysteinsson, oddviti Fjarðalista með 3,17 og Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri sem leiðir Framsóknarflokkinn 3,11 en þar á eftir Anna Margrét Arnarsdóttir úr Vinstri grænum með 2,5.
Heilbrigðis- og umönnunarmál fá hæstu einkunn þegar spurt er hvaða málefni skipti fólk mestu við val á framboðslista, fá 4,44 af fimm mögulegum. Þar á eftir koma samgöngumál með 4,41, húsnæðismál með 4,36 og fólkið á listanum með 4,35. Menningarmál skora lægst með 3,64.