Þrjár veglínur að Fjarðarheiðargöngum til skoðunar

Vegagerðin skoðar nú þrjá mögulega kosti að vegagerð að væntanlegum Fjarðarheiðargöngum Héraðsmegin. Munna ganganna hefur verið valinn staður í 130 metra hæð yfir sjó í landi eyðibýlisins Dalhús á Eyvindarárdal.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í drögum Vegagerðarinnar um áætlun á umhverfismati sem birt var í vikunni.

Núverandi vegur milli Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðar er 27,3 km langur yfir Fjarðarheiði. Vegurinn liggur mest í 620 metra hæð yfir sjávarmáli og telst því hæsti fjallvegur sem tengir saman byggðarlög í landinu. Hann er snjóþungur eftir því og því oft illfær á veturna. Til stendur að leysa úr þessu með að gera í staðinn 13,3 km löng jarðgöng og alls 6,7-11,3 km af vegum.

Þverar golfvöllinn

Seyðisfjarðarmegin verður munni ganganna við Gufufoss í um 130 metra hæð yfir sjávarmáli. Samkvæmt matsdrögunum kemur aðeins ein veglína til greina og fylgir hún að miklu leyti núverandi vegi þótt færa þurfi hana á kafla vegna bratta. Nýja veglínan þverar meðal annars golfvöllinn á Seyðisfirði og er gert ráð fyrir að gera göng undir veginn til að tengja saman völlinn.

Með tilkomu ganganna leggst núverandi leið yfir Fjarðarheiði af. Þó er gert ráð fyrir að sá hluti sem liggur upp að skíðasvæðinu í Stafdal verði viðhaldið til skíðaiðkunar á veturna og fyrir ferðafólk á sumrin.

Þrjár leiðir á Héraði

Staðan er flóknari Héraðsmegin, þótt nú liggi fyrir að munni ganganna verði í landi Dalhúsa á Eyvindarárdal. Þar eru þrjár veglínur til skoðunar. Í öllum tilfellum er gert ráð fyrir að legu vegarins um Fagradal til Reyðarfjarðar, núverandi Hringvegar, verði breytt til að sleppa við bratta og vetrarfærð í Egilsstaðaskógi.

Í fyrsta lagi er svokölluð norðurleið. Samkvæmt henni yrði núverandi Hringvegi breytt þar sem komið er niður af Fagradalnum sjálfum og farið yfir Eyvindarána í átt að göngunum. Leiðin liggi síðan meðfram ánni að austanverðu og komi niður rétt innan við núverandi Seyðisfjarðarveg, utan við þéttbýlið á Egilsstöðum. Þetta er lengsta leiðin, gera þyrfti 8,7 km af vegum og tvær nýjar brýr á Eyvindará. Í athugasemd Vegagerðarinnar kemur fram að vegtæknilega sé leiðin erfið.

Í öðru lagi er það miðleið, sem felur í sér minnstar breytingar á núverandi Hringvegi. Hann yrði aðeins færður til á 3,1 km kafla í áttina að Eyvindará til að minnka bratta. Eftir sem áður yrði komið inn í Egilsstaði við Selbrekku og niður Fagradalsbraut. Gera þyrfti eina nýja brú á Eyvindarána þar sem göngin tengjast henni yrði heildarvegagerð með þeirri tengingu 4,1 km. Kosturinn er talinn vegtæknilega góður.

Sama dóm fær suðurleiðin. Sú lína fylgir miðlínunni, þar sem farið er í átt að Eyvindaránni, en stefnan síðan tekin fyrir innan og ofan þéttbýlið á Egilsstöðum áður en komið er niður skammt innan við það á Skriðdals- og Breiðdalsveg. Með þessari leið yrði Hringvegurinn færður til á 6 km kafla en tenging við göngin eins og í miðleiðinni.

Náttúrurannsóknir í sumar

Matsáætlunardrögunum er ætlað að ná utan um þá umhverfisþætti sem athuga þarf í aðdraganda framkvæmdanna. Meðal annars kemur fram að veglínurnar séu líklegar til að raska landsvæðum sem teljast hafa hátt verndargildi, svo sem votlendi og gömlum birkiskógi.

Rannsóknum á jarðfræði og ýmsu öðru er lokið en í sumar stendur til að gera athuganir á gróðurfari, fuglum og hreindýrum og ásýnd landslags á svæðinu. Þær rannsóknir verða í höndum Náttúrustofu Austurlands.

Gert er ráð fyrir að Skipulagsstofnun taki drögin fyrir í haust og frummatsskýrsla verði tilbúin haustið 2021. Stofnunin gerir athugasemdir við þær og er vonast til að endanleg skýrsla um mat á umhverfisáhrifum og álit Skipulagsstofnunar á henni liggi fyrir snemma árs 2022.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.