Orkumálinn 2024

Þrjá daga á heimleið í ferðatakmörkunum

Fljótsdælingurinn Brynjar Darri S. Kjerúlf og kærasta hans Karin Taus voru þrjá sólarhringa að komast frá Tansaníu, þar sem þau voru við sjálfboðaliðastörf, til Vínarborgar þar sem þau hafa vetursetu. Fyrri áform þeirra um heimferð fóru út um þúfur þar sem flugáætlanir riðluðust í heimsfaraldri covid-19 veirunnar.

Brynjar Darri og Karin fóru í byrjun febrúar til Tansaníu á vegum austurrísku sjálfboðaliðasamtakanna Africa Amini Alama, sem rekið hafa heilbrigðisþjónustu og skóla í landinu. Þau áttu bókað far heim aftur í lok maí en ákváðu að breyta um dagsetningu eftir að ráðleggingar voru gefnar út til Evrópubúa að snúa til sinna heimalanda.

Samtökin reka fjóra skóla, þrjá fyrir börn á grunnskóla aldri en þann fjórða fyrir ungmenni á framhaldsskólaaldri. Brynjar Darri og Karin kenndu í framhaldsskólanum, hann ensku en hún dans og tónlist.

Í Tansaníu, líkt og mörgum öðrum ríkjum, voru seglin dregin saman þegar útbreiðslur faraldursins jókst. Þegar fyrstu smit höfðu verið greind í landinu var skólum lokuð. Þá fluttu Darri og Karin sig um set yfir á munaðarleysingjahæli sem samtökin reka.

Síðust heim

Þau segja að alla jafna séu 7-9 sjálfboðaliðar á vegum Africa Amini Alama á þeirra svæði. Þeir hafi týnst hægt og rólega í burtu, eftir því sem dvalartíma þeirra lauk eða ferðatakmarkanir jukust og nýir komu ekki í staðinn. Niðurstaðan varð sú að Brynjar Darri og Karin urðu síðust heim af sjálfboðaliðum samtakanna.

Þau segja það hafa verið erfiða ákvörðun að fara fyrr heim. Þau hafi meðal annars verið búin að áforma ferðalög um Rúganda og Úganda í maí. „Við þurftum talsverða sannfæringu. Okkur langaði ekkert heim. Líf okkar var óbreytt á meðan allt var að breytast í Evrópu og loftslagið betra. Þetta var fáránlega skemmtilegur tími, við fórum í safarí og gengum á Meru-fjall, það fimmta hæsta í Afríku. Við vorum að huga að fleiri gönguferðum á sama tíma og við vorum að skipuleggja heimferðina.

En eftir að bæði utanríkisráðuneyti Austurríkis og Íslands ráðlögðu borgurum sínum að fara heim, auk þess sem ágætur Fljótsdælingur í utanríkisþjónustunni mælti með því, þá ákváðum við að gera það,“ segja þau.

Staðan þrengist

Þetta var fyrir um þremur vikum. Þá tók við að finna flug til Austurríkis á sem bestum kjörum, því flugfélög hafa verið liðleg við sína viðskiptavini í breytingum og endurgreiðslum. Flugið í lok maí var með Ethiopian Airlines. Því gátu þau flýtt til 1. apríl og áttu þá bókað frá Tansaníu um Eþíópíu tli Austurríkis.

Síðan tóku að berast SMS-skilaboð, fyrst um að fluginu væri aflýst, síðan að það væri á áætlun en hefði verið yfirtekið af Austrian flugfélaginu. Nokkrum dögum síðan kom tilkynning um að brottfararvöllurinn í Tansaníu væri lokaður. Þá þurfti hins vegar að finna út hvort leiðin Eþíópía-Vín væri enn opin. „Við reyndum að hringja og hringja. Það kostaði marga peninga.“

Skilaboðin væru á köflum misvísandi, bæði um hvaða flug væru í boði, hins vegar hvað kjör þeim byðust á breytingum á flugi sínu. Að lokum var það vinkona Karin sem hringdi í eþíópíska flugfélagið. Eftir tveggja tíma símtal hafði henni tekist að tryggja parinu miða á hóflegum kjörum.

„Eftir að öllu var aflýst hringdum við. Þá áttum við ekki að fá neina peninga til baka, bara inneignarnótur út þetta ár. Síðan átti flugið að kosta 3000 dollara (rúmar 430 þúsund krónur á mann).“

Mestur tíminn í bið

Ferðalagið hófst á föstudag, 3. Apríl, með tveggja tíma akstri á flugvöllinn í Kilimanjaro þaðan sem flogið var til Dar es Salaam, fjölmennustu borgar Tansaníu. Þar dvöldu Brynjar Darri og Karin yfir nótt áður en þau flugu eftir hádegi á laugardag áfram til Addis Ababa, höfuðborgar Eþíópíu. Þaðan fóru þau með næturflugi til Frankfurt í Þýskalandi. Lokahnykkurinn var síðan sex tíma lestarferð til Vínar.

„Ferðin heim var kannski ekki jafn dramatísk og þriggja daga ferðalag hljómar. Mestur tíminn fór í a að sitja á flugvöllum og víða, en auðvitað var alltaf smá óvissa um að einhverju fluginu yrði aflýst. Við hefðum getað flogið til Vínar, lestarferðin var mun ódýrari. Í þriggja daga ferðalagi skipta sex tímar í lest ekki miklu máli.

Við vorum ekki í svo slæmri stöðu. Við þurftum ekki að vera í tvær vikur á flugvallarhóteli á eigin kostnað, eins og tvær þýskar stelpur sem við hittum í Frankfurt,“ segja þau. Stelpurnar fengu far heim með sérstöku flugi á vegum þýska ríkisins sem farið var til að sækja þýska ferðamenn á Nýja-Sjálandi.

Brynjar Darri og Karin skoðuðu einnig slíka möguleika. „Við vorum skráð í slíkt flug hjá íslenskum stjórnvöldum en það voru engin þannig í boði frá Tansaníu. Við vorum í samskiptum við íslenska sendiráðið í Berlín. Þar ríkti fyrst bjartsýna íslenska hugarfarið um að þetta myndi reddast með þýsku flugi. Það voru skoðaðir fleiri möguleikar ef við yrðum föst. Bretar horfðu á flug frá Kenýa. Þá hefði sagan verið dramatískari. Svo þurfti þess ekki. En ef við hefðum ekki tekið þetta flug núna þá var næsta ekki fyrr en 16. apríl og það er ekkert víst um að það fari í loftið.“

Fámennt á flugvöllunum

Ferðalagi þeirra lauk í Vínarborg um miðjan dag í gær þar sem þau þurfa að bíða af sér tveggja vikna sóttkví. Vinkona Karin reddaði þeim aftur, að þessu sinni íbúð sem vanalega er leigð ferðamönnum, en þeir eru fáir á ferðinni þessa dagana. „Við erum með mikið af spilum, púsluspilum, nokkra bækur og svo ætla ég að baka súrdeigsbrauð. Karin ætlar að undirbúa komandi sumar í hestatamningum á Íslandi,“ segir Brynjar Darri.

Þau segja það hafa verið talsverð viðbrigði að koma til Evrópu í gær. „Í Afríku eru margir með grímur fyrir vitum og með okkur í fluginu voru nokkrir Asíubúar íklæddur heilgöllum eins og heilbrigðisstarfsfólk. Í þeim voru þau allt flugið. Við vorum reyndar líka með grímur en þótti þær óþægilegar.

Í Þýskalandi voru engir með grímur. Það voru fáir í lestinni, en í sjálfu sér var þessi lestarferð ekki öðruvísi en aðrar. Löggan var með grímur, sumt starfsfólkið í lestinni en ekki tollurinn. Á landamærunum kom löggan til að skoða vegabréfin okkar og spyrja hvaðan við kæmum og hvert við værum að fara en ekkert meir.

Það var skrýtið að fara í gegnum flugvellina. Frá flugvellinum í Dar es Salaam var eitt flug, okkar og er völlurinn samt sá stæri í Tansaníu. Í Eþíópíu var líflegra þótt þar væru margar kyrrsettar vélar. Í Frankfurt var tómlegt.“

Í Austurríki eru umfangsmiklar lokanir og ströng tilmæli til fólks um að halda sig heima. Í Evrópu er hins vegar hlýtt í veðri, fyrstu dagar sumarsins og segja Brynjar Darri og Karin að þó nokkuð af fólki hafi verið á ferli í gær. „Fólk var samt ekki öxl við öxl í verslunargötunum eins og vanalega, en það var hellingur af fólki út að hjóla eða ganga og njóta sólarinnar.“

Þar eru sektir við að virða ekki fjarlægðartakmörk. Ríkisstjórnin kynnti svo í morgun áætlanir um að draga úr höftum í áföngum eftir páska. Bann við stærri samkomum, svo sem tónlistarhátíðum, verður þó í gildi fram í júlí.

Gæti farið illa með Afríku

Samkvæmt tölum hefur covid-19 veiran enn ekki náð verulegri útbreiðslu í Afríku. Samkvæmt nýjustu tölum hafa aðeins 24 tilvik verið greind í Tansaníu. Sérfræðingar hafa hins vegar lýst áhyggjum af að stjórnvöld víða í álfunni greini ekki frá tilvikum auk þess sem hvorki samfélögin né heilbrigðiskerfin geti tekist á við faraldur. Undir það taka Brynjar Darri og Karin.

„Aðstæður þarna eru allt aðrar. Hvernig ætlarðu að koma í veg fyrir samgang fólks þegar sex deila rúmi, fjölskyldur búa í húsum sem eru á stærð við baðherbergin okkar eða í stórborgunum,“

Þau stefna á að koma til Íslands í sumar, hvenær er hins vegar óráðið. Karin starfar við hestaþjálfun og kennir reiðmennsku en kennslan liggur niðri nú um stundir. Brynjar Darri hefur unnið á veitingahúsum. „Það eru tugir þúsunda nú að leita sér að vinnu. Framtíðin okkar er alveg óráðin. Við eigum bókað flug í júlí, kannski flýtum við því ef það verður í boði.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.