Orkumálinn 2024

Þriggja bíla árekstur á Fagradal

Þrír bílar skullu saman á veginum utan í Grænafelli, á leiðinni frá Reyðarfirði upp á Fagradal, um kvöldmatarleytið í gær. Fjögur önnur óhöpp urðu í vetrarfærð á Austurlandi í gær.

Fimm manns voru í bílunum þremur og voru þrír einstaklingar fluttir með áverka á sjúkrahúsið í Neskaupstað.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu mun slysið hafa orðið með þeim hætti að keyrt var aftan á húsbíl sem var að athafna sig á veginum. Þriðji bíllinn keyrði síðan á húsbílinn eftir að fyrri áreksturinn varð. Snjór og hálka var á veginum og nokkurt kóf á köflum.

Fjögur önnur óhöpp eru skráð í dagbók lögreglunnar á Austurlandi. Tvö urðu í Skriðdal, annars vegar við vegamótin við Úlfsstaði þar sem bíll rann út af veginum í hálku, hins vegar við brúna yfir Gilsá. Þá fór einn bíll út af í Eskifirði, gegnt bænum. Engin slys urðu á fólki í þessum óhöppum. Í flestum tilfellum mun hafa verið um að ræða vegfarendur óvana íslenskum vetraraðstæðum.

Þessu til viðbótar fór flutningabíll út af á Norðurbrún í Fjarðarheiði. Reynt verður að ná honum aftur upp á veginn um hádegi í dag. Óvíst er hve langan tíma það tekur en stefnt er að því að aðgerðinni verði lokið fyrir myrkur. Vegna þessa má búast við að tafir verði á umferð yfir Fjarðarheiði í dag, vegurinn lokast mögulega um tíma en reynt verður að hleypa umferð framhjá eins og kostur er á.

Á Facebook-síðu lögreglunnar á Austurlandi kemur fram að henni hafi í gær borist nokkrar fyrirspurnir um nagladekk, en samkvæmt lögum má ekki nota þau fyrr en 1. nóvember. Lögreglan á Austurlandi sektar ekki fyrir notkun nagladekkja enda aðstæður þannig að þörf er á þeim.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.