Orkumálinn 2024

Þreyttir og sælir á heimleið eftir gæslu við gosið

Hópar frá austfirskum björgunarsveitum eru meðal þeirra sem staðið hafa vaktina við eldgosið á Reykjanesi síðustu dagana. Björgunarsveitarmenn frá Vopnafirði enduðu í 14 tíma vakt í gær eftir að ný gossprunga opnaðist.

„Vaktin átti ekki að byrja fyrr en klukkan 17:00. Ég var að prófa nýtt tæki fyrir sveitina en félagar mínir tveir voru á leið til Reykjavíkur en höfðu þó kveikt á talstöðvunum.

Ég tók eftir að það var orðinn talsverður asi á félögum í Þorbirni, björgunarsveitinni í Grindavík og svo komu félagar mínir tveir á fullri ferð. Við drifum okkur í gallana og hlupum í bílinn af stað með hinum í að rýma svæðið.

Það veitti ekki af mannskap í það því töluverður fjöldi fólks var á svæðinu. Flestir létu sér þó segjast og skildu aðstæður.

Við vorum á vakt í fyrrakvöld og vorum þá á gangi um 400 metra frá nýju sprungunni. Okkur grunaði ekki hvað gæti verið í gangi en þetta sýnir hvað svæðið er lifandi og hættulegt. Vaktinni lauk síðan um klukkan tvö í nótt,“ segir Sigurður Jón Ragnarsson, ritari björgunarsveitarinnar Vopna.

Fjölbreytt verkefni á gossvæðinu

Fjórir félagar úr Vopna fóru síðasta miðvikudag suður til Grindavíkur til að aðstoða við gæslu við eldgosið en þeirra fyrsta vakt hófst að morgni fimmtudags. Þá voru félagar frá Báru á Djúpavogi einnig á svæðinu í byrjun páskahelgarinnar.

„Tilgangurinn var létta undir með björgunarsveitunum á Suðurnesjunum. Við sinntum ýmsum verkefnum, frá því að vera á lokunarpóstum yfir í að hjálpa fólki á gönguleiðunum. Það var töluvert um að fólk vanmæti gönguna og væri ekki nógu vel búið. Við þurftum að sinna meiðslum og öðru sem gat hent á svæðinu.

Síðan vorum við á gossvæðinu að gæta þess að fólk færi sér ekki að voða þar. Það var reynt að passa að gasgildin þar sem fólk safnaðist saman væru ekki of há. Það kom fyrir að fólk fékk gaseitrun og þá þurfti það neyðarflutning af svæðinu,“ segir Sigurður Jón.

Einstakt að fá að sjá eldgosið

Hann segir björgunarsveitirnar syðra hafa verið hjálpinni fegnar en bætir við að slysavarnadeildirnar þar hafi unnið mikið starf. „Okkur finnst ekki nógu mikið minnst á hlutverk þeirra, til dæmis Þórkötlu úr Grundavík. Þær halda lífi í björgunarsveitunum með mat og nesti auk þess að passa upp á að við hvílumst,“ segir Sigurður Jón.

Hann var á heimleið til Vopnafjarðar þegar Austurfrétt náði tal af honum í dag ásamt tveimur félaga sinna. „Við erum þreyttir og sælir. Við erum glaðir að hafa fengið að aðstoða, til þess fórum við, allt annað er bónus. Ég get ekki lýst því með orðum hvernig var að sjá eldgosið sjálft, það var stórkostlegt. Svona upplifir maður bara einu sinni á lífsleiðinni. Við verðum þó hvíldinni fegnir næstu tvo daga. Síðan langar okkur kannski aftur.“

Félagar úr Vopna við eldgosið. Mynd: Björgunarsveitin Vopni

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.