Þrettán ökumenn teknir fyrir of hraðan akstur á Reyðarfirði

Þrettán af þeim fimmtán ökumönnum sem um helgina voru sektaðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar á Austurlandi voru gripnir við innkomuna í þéttbýlið á Reyðarfirði. Lögreglan leggur í september áherslu á að ná niður umferðarhraða í þéttbýli.

„Lögreglan var við radarmælingar við Austurveg, gegnt Þórðarbúð, á Reyðarfirði. Þar var hraði nokkuð margra ökumanna yfir leyfðum hámarkshraða sem sættu því viðurlögum,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn.

Alls voru 15 ökumenn teknir fyrir of hraðan akstur frá föstudegi til sunnudags, þar af 13 við Þórðarbúð, þar sem komið er inn í bæinn að utanverðu. Kristján Ólafur segir þetta koma nokkuð á óvart þar sem skilti með upplýsingum um leyfilegan hámarkshraða séu áberandi á svæðinu.

„Þetta er einn af mörgum stöðum þar sem við erum að radarmæla innanbæjar,“ segir hann aðspurður um staðsetninguna og þann fjölda sem keyrði of hratt.

Eftirlit í skólabyrjun

Lögreglan á Austurlandi leggur í september sérstaka áherslu á eftirlit í þéttbýli á Austurlandi, einkum við grunnskóla, í tilefni þess að skólar eru nýhafnir. Fylgst er með ökuhraða auk notkunar bílbelta og farsíma.

Kristján Ólafur segir að þótt í langflestum tilfellum séu þessi atriði í lagi sé mikilvægt að ítreka þau í skólabyrjun. Helgin bendi til þess að svigrúm sé til úrbóta og eru ökumenn því hvattir til að huga vel að akstri og hraða innanbæjar.

Á móti kemur að lögreglan fékk nýverið tölur úr mæli Vegagerðarinnar á Fagradal sem benda til þess að síðustu fimm ár hafi dregið þar úr umferðarhraða í júní og júlí. Kristján segir vonandi að sama þróun verði víðar á svæðinu.

Þá tók lögreglan um helgina númer af nokkrum bifreiðum vegna vanrækslu, einkum á aðalskoðun en einnig tryggingum. Því séu eigendur ökutækja hvattir til að koma þessum málum í lag áður en til aðgerða lögreglu kemur.

Dregur úr slysum

Samkvæmt tölfræði sem lögreglan á Austurlandi sendi frá sér í byrjun mánaðarins hefur umferðarlagabrotum svo sem vegna farsímanotkunar undir stýri og ófullnægjandi búnaðar ökutækja fjölgað nokkuð fyrstu átta mánuði ársins, samanborið við fyrri ár.

Slys séu hins vegar færri í umferðinni en síðustu ár, þau eru 18 það sem af er ári, 36 allt árið í fyrra en að meðaltali 53 árin 2015-19. Í tilkynningu lögreglunnar segir að ástæða sé til að vekja athygli á þessum góða árangri og hvetja ökumenn til að sýna áfram aðgæslu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.