Herþotur við æfingar á Egilsstöðum næstu tíu daga

Flugsveit frá norska flughernum verður við æfingar á Egilsstöðum af og til næstu tíu daga, eftir því sem veður leyfir. Búast má við nokkrum hávaða á svæðinu þegar þoturnar verða á ferðinni.

Von er á flugsveit frá norska flughernum með fjórar F-35 orrustuþotur til Keflavíkur nú í byrjun vikunnar til að sinna loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins.

Aðflugsæfingar sveitarinnar á Egilsstöðum verða frá og með morgundeginum, þriðjudeginum 23. febrúar til föstudagsins fimmta mars, eftir því sem veður leyfir en aðalaðsetur hennar verður syðra.

Alls munu um 130 liðsmenn norska flughersins taka þátt í verkefninu ásamt starfsmönnum í stjórnstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Uedem, Þýskalandi (Combined Air Operations Center) og á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Framkvæmd verkefnisins verður með sama hætti og fyrri ár og í samræmi við loftrýmisgæsluáætlun Atlantshafsbandalagsins fyrir Ísland.

Eins og með annan erlendan liðsafla sem dvelur tímabundið hér á landi gilda strangar sóttvarnarreglur meðan á dvöl norsku flugsveitarinnar stendur. Framkvæmdin er unnin í samvinnu við Embætti landlæknis og aðra sem koma að sóttvörnum hér á landi og í Noregi.

Landhelgisgæsla Íslands annast framkvæmd verkefnisins í samvinnu við Isavia. Ráðgert er að loftrýmisgæslunni ljúki í lok mars.

Frá loftrýmisgæslu Norðmenna hérlendis í fyrra. Mynd: NATO


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.