Þórunn Egilsdóttir lætur af þingmennsku

„Framboð til Alþingis verður hins vegar að bíða betri tíma. Ég mun því ekki gefa kost á mér til að leiða lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi í komandi alþingiskosningum.“

Þetta kemur fram á Facebook síðu Þórunnar Egilsdóttur þingmanns og oddvita Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi. Þórunn hefur sem kunnugt er glímt við krabbamein. Meinið hefur tekið sig upp aftur og því hefur Þórunn ákveðið að láta af þingmennsku.

„Ég hef setið á þingi fyrir Framsóknarflokkinn síðan 2013. Ég leiddi framboðslista flokksins í Norðaustukjördæmi við síðustu kosningar og er þingflokksformaður. Það hefur verið góður tími og lærdómsríkur í starfi,“ segir Þórunn á síðunni.

„Í upphafi árs 2019 greindist ég með brjóstakrabbamein og fór í gegnum stranga meðferð. Það ferli tókst vel og ég tók brött aftur til starfa síðastliðið vor enda meinið horfið. Ég var full bjartsýni, trúði að þetta væri farið og hugðist halda ótrauð áfram. Ég var sömuleiðis full orku og mig langaði að láta áfram til mín taka á þessum vettvangi og gefa kost á mér til þess að leiða framboðslista Framsóknarflokksins í kjördæminu næsta kjörtímabil,“ segir Þórunn.

„Í lok árs 2020 fór ég að finna fyrir óþægindum og rannsóknir bentu til að eitthvað þyrfti að skoða betur. Þá kom í ljós að lifrin starfaði ekki eðlilega. Meinið hefur tekið sig upp að nýju en brýnt er að vera bjartsýn. Maður verður alltaf að horfa fram á við. Og maður má aldrei missa vonina. Aldrei. Framboð til Alþingis verður hins vegar að bíða betri tíma.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.