Þjóðgarðsfundi frestað á ný vegna bilaðrar flugvélar

Kynningarfundi umhverfis- og auðlindaráðherra um fyrirhugaðan Hálendisþjóðgarð, sem halda átti á Egilsstöðum í kvöld, hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Bilun í vél Air Iceland Connect veldur því að ráðherrann kemst ekki á staðinn.

Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu var ráðherrann ásamt fylgdarliði og örðum farþegum kominn út í áætlunarflugvél flugfélagsins sem fara átti úr Reykjavík klukkan 18:00 í kvöld.

Þá var tilkynnt um að bilun hefði komið upp þannig að allir farþegar fóru frá borði á ný. Ekki er enn ljóst hvort síðasta ferð dagsins austur verði flogin en á vef fyrirtækisins kemur fram að næstu upplýsinga sé að vænta klukkan 20:00.

Þó er ljóst að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, kemst ekki austur í tæka tíð fyrir fundinn sem boðaður var klukkan 19:30 í kvöld. Nýr fundartími liggur ekki fyrir.

Þetta er í annað skiptið sem ráðherrann neyðist til að fresta fundinum. Upphaflega stóð til að halda hann fyrir viku en það gekk ekki eftir vegna illviðris um land allt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.