„Þessa nótt skipið á Skrúðnum steytti“

Þrjátíu ár voru í gær liðin frá einu mannskæðasta sjóslysi við Íslandsstrendur þegar tankskipið Syneta fórst við skrúð. Tólf manns fórust í slysinu sem kallaði á talsverðar umræður um öryggismál sjómanna bæði hérlendis og í Bretlandi.


„Það kallað í okkur um miðnættið og sagt að Syneta hefði strandað við Seley, svo við héldum strax af stað," sagði Friðrik Stefánsson, skipstjóri á Þorra frá Fáskrúðsfirði í samtali við Morgunblaðið 28. desember árið 1986. Þorri var fyrsta skip á strandstaðinn. 

Neyðarkall barst frá Synetu klukkan 23:20 að kvöldi jóladags en skipverjar virtust ekki vissir hvar þeir voru strandaðir og virtust telja sig við Seley í minni Reyðarfjarðar en ekki við Skrúðinn.

Bátar fóru af stað frá Austfjörðum og fóru þeir fyrstu frá landi um klukkan tólf. Rétt fyrir klukkan eitt staðfestu skipverjar á Hólmatindi frá Eskifirði að Syneta hefði strandað við Skrúð með fjarlægðarmælingum á fjarskiptum. Fjarskiptasamband var við Synetu nokkrar mínútur í viðbót og þaðan var skotið upp neyðarblysi. 

Umfangsmikil björgunaraðgerð

Þorri kom á staðinn um klukkan hálf tvö. Fljótlega voru ellefu skip komin á svæðið til viðbótar, þar á meðal varðskipið Týr. Á þriðja hundrað björgunarmanna tóku þátt í aðgerðunum og þeir sem gátu hjálpað til gerðu það.

„Björgunarsveitin ræsti okkur út um klukkan hálf tvö. Við tókum ýmsan varning úr sjoppunni, settum í rútu sem Jón fór á og hélt til í Skriðunum á meðan á leitinni stóð. Við létum þau hafa allt sem við gátum og vorum á vakt í sjoppunni þangað til seinni partinn annan dag jóla þegar leitinni lauk,“ er haft eftir Önnu Björk Stefánsdóttur sem rak sjoppuna á Fáskrúðsfirði þegar slysið varð í riti Franskra daga. 

Einn fannst með lífsmarki

Fyrsta líkið fannst klukkan 2:40. Skömmu síðar fannst þriðji stýrimaður skipsins með lífsmarki en meðvitundarlítill. Engar upplýsingar frá honum um það sem gerst hafði og lést hann síðar um nóttina.

Alls fundust níu lík um nóttina, öll í björgunarvestum. Tvö runnu úr vestunum og hurfu í sjóinn þegar reynt var að koma þeim um borð í björgunarskip.

„Annar þeirra sem við náðum um borð var í léttum fötum og björgunarvesti en hinn var í heilgalla. Við náðum þriðja manninum að borði. Hann rann þá úr björgunarvestinu og hvarf í hafið, þetta var hræðilegt!" sagði Árni Halldórsson, skipstjóri á Eskifirði í samtali við Morgunblaðið.

Skipverjar Synetu þóttu illa klæddir, sumir bara í buxum og skyrtu. Var það talið til marks um að þeir hefðu yfirgefið skipið í skyndi og ekki komið út björgunarbátum. Áhöfnin virtist heldur ekki hafa kunnað að festa á sig vestin, sumu voru öfug þannig þau snéru vitum manna niður í sjóinn.

Syneta var talin hafa laskast verulega við áreksturinn við Skrúð og fannst töluvert brak á svæðinu. Talið er að skipinu hafi hvolft skömmu eftir strandið og síðan sokkið að mestu.

Lausamenn í áhöfninni

Syneta lét úr höfn í Liverpool á Englandi þann 20. desember og átti upphaflega að sigla til Vestmannaeyja. Því var breytt og stefnan tekin á Eskifjörð. Þar átti skipið að taka 1.100 lestir af lýsi og halda til Rotterdam í Hollandi.

Tólf manns voru í áhöfn, fimm yfirmenn og kokkur frá Englandi og sex skipverjar frá Grænhöfðaeyjum. Svo virðist sem flestir hafi verið munstraðir í ferðina örlagaríku sem lausamenn. Lík Bretanna sex voru send út en illa gekk að hafa upp á ættingjum mannanna frá Grænhöfðaeyjum. Þeir voru loks jarðsettir í Gufuneskirkjugarði.

Óskiljanlegt hví skipið sigldi beint á Skrúðinn

Strand skipsins vakti margar spurningar en ratbjart var að kvöldi jóladags og furðulegt að skipverjar skyldu ekki hafa varað sig á Skrúðnum. „Eyjan stendur hátt og beint upp úr sjónum og skipið sigldi sunnan megin í hana. Við skiljum ekki hvers vegna það sigldi beint á hana,“ var haft eftir Hannesi Hafstein hjá björgunarsveitunum í erlendum fréttaskeytum

Í brjóstvasa eins stýrimanns fannst bréf, skrifað að á aðfangadagskvöld til konu Englands, þar sem hann lýsti áhyggjum sínum af því að skipið væri ganglítið og sjálfstýringin biluð.

Sú saga var lífseig að breskur kafbátur, Splendid, hefði verið í námunda við Synetu. Þeirri sögu var neitað eftir fyrirspurn í breska þinginu. Eins var því haldið að skipverjar hefðu setið að sumbli í jólaveislu en niðurstöður krufningar sýndu að þeir voru ekki undir áhrifum áfengis.

Þyrla hefði verið eina vonin

Hérlendis vakti slysið eðlilega upp umræðu um öryggismál sjómanna og björgunarsveitir á Austfjörðum fóru að skoða öflugri báta.

„Menn áttuðu sig á því að öflugur hraðskreiður björgunarbátur hefði þarna bjargað mannslífum. Litlu opnu slöngubátarnir máttu sín lítils við þær aðstæður sem þarna voru, sjóhæfni þeirra og ganghraði var ekki upp á marga fiska í lok desember fyrir opnu hafi. Björgunarsveitarmönnum varð því ljóst að öflugan björgunarbát þyrfti sveitin að eignast og eiga öflugan sjóflokk,“ segir í ágripi af sögu björgunarsveitarinnar Geisla á Fáskrúðsfirði í blaði Franskra daga frá því í sumar.

Eins jókst þrýstingur á að Landhelgisgæslan fengi öfluga þyrlur og ein þeirra yrði staðsett á Austfjörðum. „Ef þyrla hefði verið nærstödd held ég að hún hefði verið eina von þeirra,“ sagði Grétar Rögnvarsson, þá skipstjóri á Sæljóninu frá Eskifirði við Morgunblaðið. Sæljónið var eitt þeirra skipa sem hífði skipverja af Synetu um borð.

Aðdáunarvert starf þeirra sem hlupu frá jólahaldinu til hjálpar

Í Bretlandi var voru ættingjar skipverja ósáttir við hve litlar upplýsingar þeir fengu og síðar hversu illa þeim gekk að fá greiddar dánarbætur. Starfsmannamiðlunin sem réði skipverja neitaði að gefa upp nöfn þeirra og sagðist með því vera að verja fjölskyldur þeirra fyrir ágangi fjölmiðla.

„Okkur var sagt að Syneta hefði strandað við Ísland og bróðir minn væri talinn af. Segja má að þetta séu einu opinberu upplýsingarnar sem við höfum fengið um afdrif Marks,“ sagði Heather Gamble, systir eins þeirra sem týndist í hafið.

Hún kom til landsins um viku eftir slysið til að afla upplýsingar og kom meðal annars austur til að tala við björgunarmenn og fleiri en sjópróf fóru fram á Eskifirði.

„Ég verð að viðurkenna að áður en ég kom hingað gerði mér enga grein fyrir því hversu mikla vinnu Íslendingar lögðu í björgunarstarfið. Ég fer héðan fullþakklætis í garð bæjarbúa á Eskifirði og annarra sem hlupu burt frá jólahátíðinni til að freista þess að bjarga nauðstöddum sjómönnum. Starf þeirra er aðdáunarvert,“ sagði hún við Morgunblaðið áður en hún fór af landi brott.

Björgunarbáturinn rúmaði aðeins sex

Í Bretlandi urðu einnig miklar umærður um öryggismál á hentifánaskipum. Syneta var í eigu ensks skipafélags en skráð í Gíbraltar. Kröfur um öryggismál og mönnum voru sögð vægari í slíkum löndum. Við sjópróf viðurkenndi talsmaður skipafélagsins að björgunarbátum í Synetu aðeins væri björgunarbátur sem rúmaði sex þótt tólf væru í áhöfninni. 25 manna bátur var um borð áður en skipið var skráð á Gíbraltar. 

John Prescott, þingmaður Verkamannaflokksins frá Hull sem síðar varð varaforsætisráðherra Tony Blair 1997-2007 en hafði áður tekið þátt í viðræðum um lausn þorskastríðanna, krafðist opinberrar rannsóknar sem Bretar myndu stjórna. Hann notaði tækifærið til að skjóta á ríkisstjórn Thatcher fyrir að hvetja bresk skipafélög fyrir að skrá skip sín annars staðar. 

Hvar var yfirmaðurinn á vakt?

Niðurstöður breskrar rannsóknar voru þær að sá yfirmaður sem hefði verið á vakt hefði annað hvort verið sofandi, fjarverandi eða veikur til dæmis vegna hjartaáfalls. Annað gæti ekki útskýrt „hið óskiljanlega ferli sem varð til þess að skipið sigli á 7,5 hnúta hraða á klett sem skagaði upp úr sjóndeildarhringnum.“

Samkvæmt fyrstu samskiptum skipstjórans við fjarskiptamenn í landi hefði hann verið nýverið kominn í brúna og orðið bilt við en fljótlega borið sig fagmannlega að. Hann skýrði frá björgunarbátar hefði slitnað frá skipinu. Rannsóknin gagnrýndi einnig norsku björgunarvestin fyrir að vera léleg og illa hönnuð.

Dómstjórinn hrósaði hins vegar íslensku björgunaraðferðinni, sagði hana „merkilega“ og allt sem hægt var hefði verið reynt til að bjarga áhöfninni. 

Á jóladag 1986 fórst einnig flutningaskipið Suðurland úti fyrir Langanesi. Sex skipverjar fórust en fimm var bjargað með snarræði áhafnar danska varðskipsins Vædderen sem kom frá Færeyjum.

Mannskæðasta sjóslysið við Ísland frá 1950

Ekki hefur orðið jafn mannskætt sjóslys við Íslandsstrendur síðan Syneta fórst og fara þurfti aftur til ársins 1950 til að mannskæðara slys. Það ár fórust 27 skipverjar þegar olíuskipið Clam strandaði við Reykjanes.

Syneta var 86 metra langt og 1260 tonna tankskip. Það var smíðað í Falkenbergs skipasmíðastöðinni í Svíþjóð árið 1969 og hét áður Marga og Margareta en fékk Synetu-nafið (í sumum heimildum Synetta).

Árið 1985 var það selt til Syndicate Tankships í Bretlandi sem skráði það umsvifalaust í Kýpur. Útgerð skipsins var Haggerstone Marine. Hvorugt félagið virðist starfandi lengur. Ekki finnast upplýsingar um Syndicate en Haggerstone var leyst upp árið 2001.

Talið er að Syneta liggi á allt að 45 metra dýpi við Skrúð. Fjórir skipverjar voru jarðsettir í Bretlandi, þrír í Gufuneskirkjugarði en fimm hlutu vota gröf. Minninga þeirra lifir hins vegar í texta Bubba við lag Martins Hoffmanns sem heitir einfaldlega Syneta.

Mynd: Skot af forsíðu Tímans 28. desember 1986 af timarit.is

 


 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.