Þeir sem fóru frá borði fyrirgerðu rétti sínum til þjónustu

Farþegar sem yfirgáfu flugvélar Wizz Air, sem lentu vegna veðurs á Egilsstaðaflugvelli í gærkvöldi, eiga engar kröfur á flugfélagið, að sögn lögmanns sem sérhæft hefur sig í réttindum flugfarþega.

„Það er ekki úr miklu að moða fyrir þessa farþega. Um leið og þú ferð út úr vélinni á eigin forsendum ertu á eigin vegum,“ segir Ómar R. Valdimarsson, lögmaður sem heldur úti vefnum Flugbætur.is.

Tvær flugvélar Wizz Air á leið frá Póllandi til Keflavíkur lentu vegna veðurs á Egilsstaðaflugvelli skömmu eftir klukkan sex í gærkvöldi. Um borð voru samtals ríflega 350 farþegar. Þeir gátu valið milli þess að fljúga aftur til Póllands þar sem félagið myndu útvega þeim gistingu og far í dag til Keflavíkur, eða fara frá borði og bjarga sér sjálfir.

Áður en þeir yfirgáfu vélina þurftu þeir að skrifa undir yfirlýsingu um að þeir fyrirgerðu öllum rétti sínum til krafna á flugvélinu. Vélarnar flugu aftur til þeirra borga sem þær komu frá eftir um 2,5 tíma stopp með samtals innan við 100 farþega.

Réttur til þjónustu

Við aðstæður eins og í gærkvöldi ræður flugfélagið hvar það kemur flugvélum sínum í skjól. Veður flokkast undir óviðráðanlegar orsakir og við slíkar kringumstæður eiga farþegar rétt á þjónustu, en ekki til bóta.

„Samningssambandið snýst um að flytja farþegann frá A til B. Að lenda á C skapar engan rétt. Rétturinn er að flugfélagið útvegi gistingu og fæði á þeim stað sem flugfélagið ákveður að hafa næturstað á. Þeir sem kusu að fara frá borði hafa fyrirgert rétti sínum til þessarar gistingar. Þeir eiga heldur ekki rétt á neinum bótum.

Þeir ættu ekki rétt á neinni þjónustu á Egilsstöðum nema flugfélagið hefði ákveðið að afferma vélina þar, hleypa öllum frá borði og fljúga síðan frá Egilsstöðum til Keflavíkur þegar veðrinu slotaði.“

Yfirlýsingin sem farþegar voru látnir undirrita pirraði marga farþega. Ómar telur flugfélagið hafi verið í rétti en bætir við að velta megi upp stöðu þess fólks sem hafi verið lengi á ferðinni, mögulega með þreytt börn sjálft sjálft. „Þetta fólk er sett í erfiða stöðu.“

Upplýsingagjöfin oftast það sem misferst

Farþegar hafa einnig lýst óánægju með upplýsingagjöf Wizz Air. Samkvæmt evrópskum reglum um réttindi flugfarþega ber flugfélögum að upplýsa með skýrum hætti um breytingar á flugi þeirra og réttindi þeirra. Eftir að farþegarnir voru farnir frá borði var engar upplýsingar fyrir farþegana á vegum Wizz á Egilsstöðum.

Félagið gaf þó út á samfélagsmiðlum viðvörun um stöðuna og leiðbeindi farþegum um hvernig þeir gætu fundið stöðu síns flugs. „Flugfélögum ber skylda til að upplýsa um aðstæður hverju sinni og hvað sé í vændum. Þetta er sá sem hluti sem oftast klikkar. En þegar fólk er komið út á eigin forsendum er það á eigin vegum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.