„Þegar fólk býst ekki við neinu er hægt að koma því á óvart“

Rekstraraðilar Hengifoss guesthouse hafa gert gott betur en að selja gistiþjónustu. Þau vinna að uppbyggingu gönguleiða í nágrenninu og bjóða upp á kvöldmat.

„Fólk er komið svo langt að það er ekki hægt að keyra til baka í Egilsstaði til að komast á veitingahús. Við erum miklir gourmet-grísir sem finnst gaman að elda og maðurinn minn hefur hefur verið duglegur að prófa rétti.

Fólk býst ekki við neinu þegar það sér bara tvo rétti á matseðlinum en þegar fólk býst ekki við neinu er hægt að koma því á óvart,“ segir Sigríður Hulda Stefánsdóttir sem rekstur gistiheimilið ásamt manni sínum Ingólfi Friðrikssyni í þættinum Að austan á N4.

Þau breyttu um nafn staðarins er þau tóku við rekstrinum á því sem áður hét Fljótsdalsgrund fyrir þremur árum. Um er að ræða hús sem upphaflega voru reist undir starfsfólk sem vann að gerð Kárahnjúkavirkjunar þar skammt frá. Fljótsdalshreppur eignaðist síðan húsin og kom þeim fyrir við félagsheimilið Végarð til að skjóta stoðum undir ferðaþjónustu í sveitinni.

Sigríður og Ingólfur höfðu því ekki rekið staðinn lengi þegar Covid-faraldurinn skall á með tilheyrandi vandræðum fyrir ferðaþjónustuaðila. „Fyrra árið höfðum við opið í tvo mánuði en það seinna sprakk allt út þegar Íslendingarnir komu í sólina. Í ár hefur allt verið fullt af erlendum gestum. Við vorum bara í þessu fjölskyldan í fyrra og það var ekki nóg. Við hlupum dálítið mikið hratt,“ segir hún.

Auk þess að vera með mat og gistingu hafa þau tekið þátt í að byggja upp gönguleiðir í nágrenninu. Gönguleiðin upp Skessustíg, berggang sem liggur skáhalt á önnur berglög í fjallinu, hefst við húsið.

„Við vinnum í að koma gönguleiðum og um leið Fljótsdalnum á kortið. Hér er gríðarlega fallegt, há og mikil fjöll. Við tökum eftir að fólk gistir hér fleiri nætur og nýtir möguleikana sem eru í kring.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.