Þarft að ræða gjaldtöku af umferð til framtíðar

Þingmaður Framsóknarflokksins úr Norðausturkjördæmi segir þarft að ræða framtíð gjaldtöku af umferð til framtíðar þar sem fyrirséð er að eldsneytisgjöld hverfi með tíð og tíma. Íbúar í Fjarðabyggð hafa varan á sér gagnvart boðaðri gjaldtöku í jarðgöng sem ætlað er að standa undir frekari gangagerð.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2023-27 er talað um að mótuð verði áætlun um uppbyggingu jarðganga og stofnað opinbert félag um gangagerðina. Það eigi að framfylgja áætluninni, bæði tryggja öryggi núverandi ganga og vinna að framgangi nýrra.

Jarðgangaáætlunin á að vera hluti af samgönguáætlun sem lögð verði fram á næsta þingi. Yfir 15 ára tímabil er reiknað með að bein framlög ríkisins til jarðgangagerðar verði 25 milljarðar króna, um helmingur framkvæmdakostnaðar. Það sem upp á vantar á að afla með gjaldtöku af umferð í jarðgöngum.

Áhyggjur af tvísköttun

Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, að til stæði að hefja gjaldtöku í öllum jarðgöngum á Íslandi. Slíkt hefur vakið hörð viðbrögð íbúa í Fjarðabyggð sem treysta á að geta sótt margvíslega þjónustu milli byggðakjarna. Norðfjarðar- og Fáskrúðsfjarðargöng gegna þar lykilhlutverki.

„Þetta hljómar afskaplega illa fyrir okkur í þeirri mynd eins og þetta er birt núna,“ sagði Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, í hádegisfréttum RÚV. Hann benti á að vegakerfið væri þegar skattlagt með eldsneytisgjöldum og því yrði um tvísköttun að ræða ef veggjöldin bættust við sem væri afar íþyngjandi fyrir fólk sem sækti vinnu eða þjónustu milli byggðakjarna Fjarðabyggðar eða annars staðar. Þess vegna væri mjög mikilvægt að ráðherra og ráðuneytið skoðuðu útfærslu gjaldheimtunnar vandlega.

Eldsneytisgjöldin heyri sögunni til

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins frá Fáskrúðsfirði, segist í færslu á Facebook í dag fagna umræðu um breytingu á gjaldtöku af umferð á næstu árum. Þar útskýrir hún að breytingarnar verði tvíþættar.

Annars vegar sé unnið að því að útfæra „færeysku leiðina“ þar sem rukkað er í jarðgöng til að standa straum af viðhaldi og gerð þeirra, hins vegar unnið að grundvallarbreytingu á gjaldtöku þar sem tekin verði upp notkunargjöld í stað eldsneytisgjalda. Tillögur í þessa átt eigi eftir að koma fyrir Alþingi þar sem þær verði ræddar betur.

„Hvoru tveggja liður í stærri breytingum, grundvöllurinn í þessum breytingum verður eftir sem áður að vera jafnræði alls landsins. Heildarmyndin varðandi jafnræði verður að ganga upp en á sama tíma er mikilvægt að hluti þessara gjalda verði ætlaður áframhaldandi jarðgangagerð,“ skrifar hún.

Nauðsynlegt að halda áfram frá Seyðisfirði

Fjarðarheiðargöng eiga að verða hin fyrstu í væntanlegri jarðgangaáætlun. Áætlaður framkvæmdakostnaður við þau er nú kominn í yfir 40 milljarða króna. Þau eru bæði gagnrýnd fyrir að vera dýr, enda ein lengstu veggöng Evrópu, en líka fyrir forgangsröðun framkvæmda. Hugmyndin er að þau verði fyrsti áfanginn í hringtengingu Austurlands þar sem áfram verði haldið til Norðfjarðar um Mjóafjörð en gagnrýnendur telja eðlilegra að byrja á þeim hluta, jafnvel með tengingu frá Mjóafirði til Héraðs frekar undir Fjarðarheiðina.

Bæði Líneik Anna og Sigurður Ingi segja markmið gjaldtöku í jarðgöngin vera að stuðla að því að stöðugt séu jarðgöng í vinnslu, helst fleiri en eitt. Sigurður Ingi viðurkennir að göngin séu dýr en engin spurning um að ávinningur samfélagsins verði mikill. Þá minnir Líneik Anna á að niðurstaða úttektar sérfræðinga fyrir ráðuneytið hafi verið sú að fullur hagur samfélagsins af Fjarðarheiðargöngum næðist ekki fyrr en hringtenging kæmist á.

Sigurður Ingi kveðst eiga von á að undirbúningur gjaldtöku standi fram á næsta ár. Gjaldtakan sjálf komi ekki til framkvæmdar fyrr en eftir það.

Mynd: Jens Einarsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.