Þarf úrskurð um yfirráðasvæði Seyðisfjarðarhafnar?

Deilur um helgunarsvæði Seyðisfjarðarhafnar í tengslum við fyrirhugað fiskeldi í firðinum gætu endað fyrir dómstólum. Gagnrýnendur áformanna telja að skipulagsvald fjarðarins sé í höndum bæjaryfirvalda samkvæmt hafnarlögum meðan talsmenn Fiskeldis Austfjarða segja þau aðeins ná yfir skipulag í landi.

Deilur um yfirráðasvæði hafnarinnar á Seyðisfirði eru meðal þess sem blossað hafa upp í umræðum um fyrirhugað fiskeldi í firðinum og gerðu það á ný á íbúafundi um málið í dag. Fundurinn var haldið um fyrirhugað 10.000 tonna eldi Fiskeldis Austfjarða í firðinum.

Fiskeldið fellur ekki undir nýleg lög um haf- og strandsvæði þar sem umsóknir um eldið voru komnar í ferli áður en þau tóku gildi. Þórður Þórðarson, framkvæmdastjóri Fiskeldisins, ítrekaði þó að eldissvæðin falli innan skipulagssvæðisins þegar það komi til endanlegrar staðfestingar ráðherra.

Rúnar Gunnarsson, hafnarvörður á Seyðisfirði og fulltrúi í heimastjórn, benti á móti á að fram til þess sem nýju lögin voru samþykkt hefðu hafnarlög náð yfir framkvæmdina. Á þeim byggir hafnarreglugerð fyrir Seyðisfjörð þar sem helgunarsvæði hafnarinnar er skilgreint sem fjörðurinn allur, en ytri mörkin eru dregin við fjarðarmynnið, milli Sléttaness og Skálaness.

Þórður sagði hafnarlögin, sem samþykkt voru árið 2003, væru barn síns tíma. Hann sagði þau ekki gera ráð fyrir þeirri stöðu að hafnirnar næðu allt út í mynni fjarðar. Í hafnarlögunum er einkum talað um mannvirki hafnar, en þó segir þar að í reglugerð hverrar hafnar séu skilgreind stærð og takmörk hafnarsvæðis á sjó og landi.

„Efn laganna er ekki skýrt en eftir lestur greinargerðar með þeim og tilgangs laganna efast ég ekki um að skipulagsvaldið nær aðeins til hafnarmannvirkja. Ef það er ekki verður það dómstóla eða stjórnvalda að úrskurða um það,“ sagði Þórður. Hann ítrekaði þó að Fiskeldi vildi vinna öll mál í sátt við Seyðfirðinga.

Samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða nær skipulag sveitarfélaga 115 metra út frá stórstraumsfjörur. Þórður sagði að allar festingar eldiskvía yrðu samkvæmt þeim lögum að vera utan netalaga og innan skilgreindra eldissvæða.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.