Þarf að skoða verkferlana þegar þoturnar fara aftur af landi brott

Sérstakar aðstæður sköpuðust sem læra þarf af þegar tvær þotur frá ungverska flugfélaginu Wizz Air hleyptu út 200 farþegum á Egilsstaðaflugvelli nýverið. Vélarnar lentu þar vegna veðurs í Keflavík og leyfðu farþegum að fara á eigin ábyrgð. Framkvæmdastjóri Austurbrúar segir að almennt hafi gengið vel að taka á móti flugfélögum sem nýta Egilsstaði sem varaflugvöll.

„Heilt yfir er Egilsstaðaflugvöllur vel búinn sem varaflugvöllur. Þar hefur áður verið tekið á móti vélum frá flugfélögum eins og EasyJet sem hafa nýtt völlinn. Þá hafa hótel sem búið var að loka verið opnuð og lausnir fundnar. Flugfélögin hafa verið afar þakklát þá. Þær vélar hafa síðan haldið áfram för þegar veðrinu slotar.

Það sem var óvenjulegt í þessu tilfelli var að vélarnar fóru aftur af landi brott og skildu fólkið eftir. Þá skapast óvissa meðal þess því það þarf sjálft að finna leið á sinn áfangastað,“ segir Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar.

Í tillögum að nýrri stefnumótun samgönguráðherra um uppbyggingu flugs á Íslandi er lagt til að uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar sem varavallar fyrir Keflavík verði hraðað. Á það hefur verið þrýst af íslenskum flugfélögum og samtökum flugmanna um hríð.

Áður er flugvélar hefja sig á loft er búið að gera fyrir þær flugáætlanir sem fela meðal í sér skilgreindan varaflugvöll. Innviðir í kringum flugvelli, svo sem gistipláss, eru eftir því sem Austurfrétt kemst næst eitt af því sem flugfélög horfa til þegar þau gera áætlanir. Endanleg ákvörðun um hvar er lent er þó ætíð í höndum flugstjóra.

Þarf að vera hægt að bregðast við óvæntum aðstæðum

Nokkurt óvissuástand skapaðist meðal farþega Wizz Air vélanna eftir lendingu að kvöldi föstudagsins 4. október síðastliðins. Gistipláss á Egilsstöðum voru takmörkuð og allir bílaleigubílar sem ekki þegar voru fráteknir í önnur verkefni helgarinnar, 18 talsins, voru leigðir út. Hluti farþega pantaði rútu sem kom undir morgunn næsta dag og lét fyrirberast í flugstöðinni þangað til.

„Egilsstaðaflugvöllur er tilgreindur sem varaflugvöllur hjá mörgum félögum. Þar hefur oft verið tekið á móti þotum sem lenda og þau mál verið leyst farsællega. En það er rétt að það þarf að vera hægt að takast á við óvæntar aðstæður.

Eitt af því sem kemur upp þegar lent er svona óvænt er í hvaða kostnað fólkið er tilbúið að leggja til að komast sinn áfangastað. Þarna er um að ræða lággjaldaflugfélag og farþegar þess gera mögulega ekki ráð fyrir útgjöldum sem þessum í sínum ferðaáætlun. Þótt ekki hafi verið mörg herbergi á lausu var ekki endilega vilji til að nýta þau sem voru það. Þarna eru farþegar sem vita ekki hvort þeir fái neinar bætur fyrir flugið og þurfa að vega og meta allan kostnað sem þeir leggja út í.“

Starfsfólk flugvallarins gerði það sem hægt var

Jóna Árný segir starfsfólk á Egilsstaðaflugvelli hafa staðið sig vel og gert það sem hægt var til að búa að ferðalöngunum, verið á vakt í flugstöðinni og haft veitingasöluna opna fram yfir miðnætti. Bílaleigurnar hafi reynt sitt en séu vissulega ekki með flota til að leigja óvænt 200 manns.

Ýmislegt megi þó læra af móttöku Wizz Air vélanna og meðal annars þurfi að skoða hlutverkaskiptingu, til dæmis hvað sé innifalið í samkomulagi flugfélagsins sem lendir við þann aðila sem þjónustar vélarnar á lendingarstað.

„Það þarf að skoða þessa verkferla sem eru virkjaðir þegar vélarnar fara aftur án farþega. Þá verður að rýna. Ég man ekki eftir slíkum aðstæðum áður. Ferðaþjónustan á Austurlandi hefur hins vegar sýnt að hún er fljót að finna lausnir og samskipti við þau flugfélög sem hér hafa lent hafa yfirleitt gengið vel.“

Í yfirlýsingu sem Wizz Air lét frá sér eftir atvikið segir að öllum farþegum hafi verið boðið flug aftur til Krakár og full endurgreiðsla á skakkaföllum sem farþegar urðu fyrir vegna tafanna í samræmi við stefnu flugfélagsins og Evrópureglur. Allir farþegar hafi verið upplýstir um þessi réttindi sín. Þótt Wizz Air stjórni ekki veðurskilyrðum biður það farþega sína afsökunar á óþægindunum. Öryggi farþega, áhafnar og flugvéla sé þó ætíð í fyrirrúmi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.