Þakklát fyrir góðan stuðning

Bjartur Aðalbjörnsson, oddviti Vopnafjarðarlistans, segir fólkið að baki listanum ánægt með góða kosningu í sveitarstjórnarkosningunum á laugardag þótt grátlega lítið hafi vantað upp á að ná meirihlutanum.

„Við erum hæstánægð með árangurinn þótt það sé líka ákveðið svekkelsi yfir að hafa verið svona grátlega nálægt að fá meirihluta.

Við erum þakklát fyrir góðan stuðning og lítum svo á að þessi 185 atkvæði séu til marks um að fólk vilji ákveðnar breytingar,“ segir Bjartur Aðalbjörnsson, oddviti Vopnafjarðarlistans.

Hann var annað tveggja framboða á Vopnafirði, hitt var listi Framsóknar og óháðra sem fékk fimm atkvæðum meira. Mikil spenna var þegar talið var á laugardagskvöld í félagsheimilinu Miklagarði. „Ég hafði ekki taugar í að vera þar en fékk SMS með þróuninni. Lengi var munurinn 30 atkvæði en síðan fór hann niður undir 20 áður en kom að utankjörfundaratkvæðunum. Ég hélt alltaf í vonina því ég vissi að við ættum dálítið inni þar.“

Axel Örn Sveinbjörnsson, oddviti B-lista, hefur talað um að úrslitin séu ákall um samvinnu milli framboðanna. Bjartur tekur jákvætt í þá umleitan en fulltrúar framboðanna eigi eftir að setjast niður til að fara yfir hana. „Við erum mjög til í samvinnu og sjáum ekki ástæðu til að hólfa okkur niður. Við lítum svo á að hvort framboð sé með helming atkvæða á bakvið sig og fjórði maðurinn megi ekki skipta öllu máli.“

En síðan þarf að bretta upp ermar og fara að vinna í málunum. „Það þarf að funda með íbúum strax í haust um sameiningarmál þannig hægt sé að hefja viðræður ef þannig liggur á fólki. Síðan styttist í fjárhagsáætlunargerð og það þarf að hefja undirbúning hennar fyrr. Það er mikilvægt að ný sveitarstjórn sýni strax hvert hún stefnir.

Eins þarf að sýna Vopnfirðingum að við berum virðingu fyrir því sem við eigum, með að sinna viðhaldi, um leið og við sækjum fram þannig fólk vilji bæði búa hér og flytjast að.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.