„Það voru frekar skiptar skoðanir innan hreyfingarinnar um þessi skilaboð“

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, oddviti Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi, sendi í gær stöðufærslu frá sér á facebook þar sem hún lét þá skoðun sína í ljós að Vinstri græn ættu ekki erindi í ríkisstjórn ef flokkurinn fengi aðeins 10% fylgi. Ástæða orða Bjarkeyjar var nýr þjóðarpúls Gallups sem birtur var í gær og sýndi að fylgi VG mældist í 10%.


Bjarkey fjarlægði færsluna eftir samtal við Katrínu Jakobsdóttur, formann flokksins, í gær. Katrín sagði í samtali við RÚV að yfirlýsing Bjarkeyjar væri ekki í samræmi við stefnu flokksins. „ Nei það er ekki svo. Í fyrsta lagi er það þannig að við tökum ekki ákvörðun um þetta fyrr en niðurstöður kosninga liggja fyrir. Skoðanakannanir, eins góðar og þær nú eru, ráða ekki för okkar í þessum málum enda má sjá það að þær eru ansi breytilegar dag frá degi þessa dagana og margir flokkar sem liggja þétt saman í aðdraganda kosninga. Þannig að það er alveg óbreytt afstaða okkar í VG. Við erum reiðubúin að mynda ríkisstjórn um þau málefni sem við setjum á oddinn,“ sagði Katrín í samtali við RÚV.


Katrín viðurkenndi einnig að hafa átt í samskiptum við Bjarkeyju í kjölfar yfirlýsingar hennar. „Ég ræddi við Bjarkeyju um færsluna af því að það voru frekar skiptar skoðanir innan hreyfingarinnar um þessi skilaboð,“ sagði Katrín einnig við RÚV.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.