„Það var ekki fjárskortur á heilsugæslunni í gær“

„Ég bara trúði þessu varla þegar ég sá þær storma þarna inn,“ segir ferðaþjónustubóndinn Sævar Guðjónsson á Eskifirði, um kind með tvö lömb sem rötuðu inn í húsnæði heilsugæslunnar á Eskifirði um miðjan dag í gær.


Sævar var að keyra í gegnum Eskifjörð þegar hann sá kindurnar á gangstéttinni fyrir utan heilsugæsluna, en hann stoppaði og náði þessu stutta myndbandi. Það var svo Guðrún Margrét Björnsdóttir sem tók ljósmyndina, en hún var einnig stödd fyrir utan heilsugæsluna á þessum tíma.

„Ég var nú bara á leiðinni á fund yfir á Reyðarfjörð þegar ég sá þær fara fyrir geislann á hurðinni sem opnaðist og þær skutluðu sér inn. Þær fengu nú ekki þjónustu en það var ekki fjárskortur á heilsugæslunni í gær, það er alveg á hreinu.“ segir Sævar en bætir því við að sömu kindur hafi látið hafa töluvert fyrir sér í haust.

„Þessi kind er búin að stríða mönnum í allt haust, það hafa verið gerðar nokkrar tilraunir til að ná henni en án árangurs. Meira að segja einn smalinn snéri sig á fæti þegar hann var að eltast við hana og lenti á heilsugæslunni, þannig að þetta er hálf kómískt allt saman. Þær eru væntanlega komnar til sín heima núna og vonandi heilar heilsu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.