Orkumálinn 2024

„Það hefur verið sótt að íslenskum landbúnaði úr mörgum áttum“

Einar Brynjólfsson, oddviti Pírata, var eini fulltrúi framboða í Norðausturkjördæmi á framboðsfundi Austurfréttar/Austurgluggans sem vill horfa til þess að minnka kjötframleiðslu hérlendis á næstu árum. Flestir aðrir frambjóðendur kváðust ekki vilja stýra matarneyslu fólks eða lýstu yfir stuðningi við bændur.


Á framboðsfundi Austurfréttar/Austurgluggans í Valaskjálf á Egilsstöðum í síðustu viku bauðst kjósendum að senda inn spurningar til frambjóðenda og var ein spurningin á þann vega hvort fulltrúar flokkanna vildu draga úr kjötframleiðslu í baráttunni við loftslagsvána. Mikið hefur verið rætt og ritað undanfarin ár að kjötframleiðsla hafi meiri áhrif á loftslagið en önnur matvælaframleiðsla.

Aðeins Einar Brynjólfsson tók afstöðu með því að minnka þyrfti kjötframleiðslu hérlendis og vildi hann á móti auka kjötrækt, sem er aðferð til að búa til kjöt án þess að slátra dýri. „Píratar eru að mínu viti eini flokkurinn sem hefur flutt þingsályktunartillögu um að landbúnaðarráðherra verði falið að gera aðgerðaáætlun og kanna fýsileika á kjötrækt. Kjötrækt er nú þegar gerleg, hún er nú þegar stunduð í rannsóknarskyni. Tæknin er ekki enn komin á þann stað að það sé hægt að gera þetta svo það borgi sig, sem sagt þannig þetta beri sig en þetta er tvímælalaust eitthvað sem mun verða. Þá mun íslensk hefðbundin kjötrækt verða fyrir barðinu á því, ef ég fæ að nota það orð, rétt eins og öll önnur kjötrækt sem skilur frá sér prump og rop,“ sagði í svari Einars á framboðsfundinum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, oddviti Miðflokksins, var sá frambjóðandi á fundinum sem var hvað mest ósammála Einari varðandi þetta mál og sá eini sem talaði fyrir aukinni kjötframleiðslu. „Það hefur verið sótt að íslenskum landbúnaði úr mörgum áttum samtímis núna um nokkur ára skeið og við skulum ekki bæta þessu við. Greinin má ekki við því og til að svara spurningunni; á að draga úr kjötneyslu? Nei það á að auka hana en fyrst og fremst á íslensku kjöti og draga úr innflutningi á kjöti,“ sagði Sigmundur Davíð.

Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar voru loðnir í svörum en af svörum þeirra má lesa að vegna minnkandi eftirspurnar á kjöti í samfélaginu sé vert að líta frekar til annars konar framleiðslu í meira mæli. Þá talaði fulltrúi Flokks fólksins um að grænmetisframleiðsla myndi stóraukast á næstu árum.


Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins ræddi málið ekki í svari sínu. Svör frambjóðendanna voru eftirfarandi:

Vinstri græn - Jódís Skúladóttir (2. sæti): Málið er það að það er að dragast saman neysla á kjöti. Það er bara að gerast hvað sem okkur finnst um það. Ég vil standa við bakið á landbúnaðinum, ég vil að bændur fái sanngjarnt afurðaverð, en svona er bara þróunin. Það hefur bara dregið gríðarlega úr kjötneyslu á undanförnum árum, þannig það er í rauninni að gerast og það dregur úr framleiðslunni sem hjálpar við umhverfismálin, eða loftslagsmálin.

Framsóknarflokkurinn - Líneik Anna Sævarsdóttir (2. sæti): Tölur um áhrif á kjötneyslu á loftslagið eru ekki alltaf sambærilegar, þær tölur sem við höfum verið að vinna með. Ég held að það muni breytast mjög margt sem við erum að vinna með tengt landbúnaði, margar tölur um losun eiga eftir breytast eftir sem rannsóknum fleytir fram. Þannig ég er ekki sannfærð um það að draga úr kjötneyslu og kjöti sem framleitt er á Íslandi muni draga úr loftlagsáhrifum. Við þurfum líka auðvitað að gæta að því hvernig við nýtum landið, við getum gert það og eigum að gera það.

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn - Björgvin Egill Vídalín Arngrímsson (Oddviti): Ég vil ekki vera að stýra því hvað fólki finnst gott að borða. Ef það vill borða kjöt þá borðar það kjöt, eða grænmetisætur eða eitthvað svoleiðis. En það sem við viljum gera er að banna innflutning á hráu kjöti. Það mun koma sér vel í loftslagsmálum, því við erum að framleiða eitt besta kjöt í heimi ómengað, svo erum við að flytja inn hrátt kjöt og vitum ekkert hvaðan það kemur og ekkert hvað er búið að sprauta í það.

Flokkur fólksins - Jakob Frímann Magnússon (Oddviti): Varðandi bændur í matvælaframleiðslu. Ég sagði áðan að ég hafi mikla trú á íslenskri matvælaframleiðslu; hreint loft, hreint vatn, hrein jörð er ávísun á góða vöru og bætta lýðheilsu. Framboð og eftirspurn mun stjórna því hvernig búskaparhættir munu þróast og breytast. Það er alveg rétt sem á var bent að það er minni eftirspurn eftir kjöti en áður en auðvitað mun fleiri sem koma hingað og vilja kjöt heldur en áður var. Þannig að bændur á Íslandi eiga eftir að fara út í stóraukna grænmetisframleiðslu, forsenda þess er að verð á orku til þeirra verði stórlækkað og það verði hvatar í því að auka grænmetisframleiðslu fyrir innanlands og utanlands markað og „branda“ allt sem við gerum hér til arðbærs útflutnings.

Sósíalistaflokkur Íslands - Haraldur Ingi Haraldsson (Oddviti): Við erum á móti stórbúum og verksmiðjuframleiðslu en gerum enga athugasemdir við aðra framleiðslu.

Samfylkingin - Hilda Jana Gísladóttir (2. sæti): Varðandi kjötframleiðsluna þá skiptir máli fyrir mig að framleiðandinn hafi heimild til þess að nýta land með þeim hætti sem hentar best og við í Samfylkingunni viljum ráðast í umbætur á landbúnaðarkerfinu án þess að draga úr stuðningi við bændur með því að hætta að skilyrða styrki við kjöt og mjólk en styðja loftslagsvæn verkefni, sjálfbæra matvælaframleiðslu og kolefnisbindingu með breyttri landnotkun, eins og endurheimt votlendis, landgræðslu og skógrækt. Því þetta snýst um að það er að eiga sér stað ákveðin þróun en landbúnaður í merkingunni að þar sé fólk sem ræktar land og er gæslumenn lands skipta líka miklu máli. Við þurfum að horfa á það út frá því.

Viðreisn - Eiríkur Björn Björgvinsson (Oddviti): Ég er ekki talsmaður einhverjar forræðishyggju varðandi kjötneyslu eða aðra neyslu. En það sem við teljum afar mikilvægt varðandi kjötframleiðslu er að hún sé umhverfisvæn og hún sé þannig úr garði gerð að hún sé unnin í samvinnu við náttúruna og að sjálfsögðu við fólkið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.