„Það verður gaman að sjá keika krakka blómstra“

„Þetta eru tvær tegundir af námskeiðum en hvert þeirra er einstakt þar sem hópurinn, staður og stund, veðurfar og fleira getur haft mikil áhrif á hvernig allt þróast,“ segir Karna Sigurðardóttir, forstöðumaður Menningarstofu Fjarðabyggðar um skapandi námskeið sem haldin verða fyrir börn á miðstigi grunnskóla á fjórum stöðum í Fjarðabyggð í sumar. 

Boðið verður upp á tvennskonar námskeið. Annars vegar námskeiðið „Leynistaður - Sköpun ævintýraveraldar“ og hinsvegar „Dans og leiklistarnámskeið - tjáning gegnum leiklist og dans“. Leiðbeinendur eru nemendur í Listkennsludeild Listaháskóla Íslands.

„Í námskeiðinu Leynistaður ræður ímyndunaraflið ferðinni. Allir standa saman en hver og einn fær að njóta sín í að framkalla töfrandi veröld úr ýmsum efnum. Leiðbeinandi er Ragnhildur Lára Weisshappel og það námskeið verður haldið á Fáskrúðsfirði og Eskifirði.

Ekki er um að ræða hefðbundið dansnámskeið, heldur ýmsar skemmtilegar og skapandi leiðir að leikrænni tjáningu. Þar er leiðbeinandi Emelía Antonsdóttir Crivello og námskeiðið verður haldið á Reyðarfirði og í Neskaupstað.

Markmiðið með námskeiðunum er að efla sjálfsmynd krakkanna gegnum tjáningu, auk þess sem þau stuðla að víðsýni. Það verður gaman að sjá keika krakka blómstra námskeiðunum þar sem áhersla er lögð á frumsköpun og persónlega nálgun hvers og eins,“ segir Karna, en hér má sjá nánari tíma- og staðsetningar námskeiðanna. 

„Við tökum eitt skref í einu“
Karna er spennt fyrir verkefninu. „Námskeiðin eru gerð í samstarfi við Liskennsludeild Listaháskóla Íslands er þar koma saman listmenntaðir einstaklingar úr ýmsum greinum og bæta við sig kennsluréttindum. Tveir nemendur lögðu til námskeiðslýsingu sem var aðlöguð aðeins að aðstæðum okkar hér. Þær eiga allan heiðurinn að viðfangsefni og inntaki námskeiðanna.

Listkennsludeildin er einn helsti vettvangur okkar Íslendinga fyrir nýjar hugmyndir í þróun kennslu í listum og skapandi ferli fyrir börn. Það er mjög áhugavert að vera í samstarfi við slíkan vettvang og gefa börnunum okkar tækifæri á að kynnast nýrri nálgun á skapandi starf. Svo er það auðvitað draumurinn að nýjar aðferðir geti skilað sér inn í skólana. Þetta er fyrsta kast í sumar, ef þetta gengur vel þá langar mig að þróa þessi námskeið frekar svo þau séu gerð í nánara samstarfi við til dæmis félagsmiðstöðvarnar og listkennslukennara á Austurlandi. Við tökum eitt skref í einu,“ segir Karna um tilraunaverkefnið.

„Sumarfríið er spennandi fyrstu dagana“
Ekki hefur verið mikið um námskeiðahald fyrir þennan aldurshóp í Fjarðabyggð. „Síðan síðasta haust hef ég verið að rýna í samfélagið í Fjarðabyggð og hlusta eftir því hvar er vöntun og þorsti fyrir menningartengdu starfi. Ég heyrði enduróma úr fjöllunum hérna að það væri pláss fyrir fjölbreyttara sumarstarf fyrir börnin, og þá sérstaklega fyrir þennan aldurshóp, miðstig grunnskóla.

Sumarfríið er spennandi fyrstu dagana en fljótt getur dagurinn orðið ansi langur þegar maður er vanur að vera í daglangri dagskrá allan veturinn. Ég hef í sjálfu sér engar áhyggjur af því að börn leiki sér sjálfstætt úti, finni uppá einhverju að gera og noti ímyndunaraflið, en námskeið getur verið kveikja fyrir þau til að koma þeim af stað, hvort sem það er með áherslu á íþróttir eða skapandi starf.

Öll námskeiðin eru opin öllum börnum í Fjarðabyggð. Námskeiðin eru tilraunaverkefni og því eru allar athugasemdir og hugmyndir er varða uppsetningu á þeim vel þegnar,“ segir Karna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.