„Þetta var augnablik í mínu lífi þar sem ég mætti öllu mínu lífi“

„Í rauninni er ég bara í rusli, ég er búinn að gráta svo mikið af þakklæti,“ segir Fellbæingurinn og guðfræðingurinn Hjalti Jón Sverrisson, sem vígður var til prests síðastliðinn laugardag. Hann hefur verið skipaður safnaðarprestur í Laugarnesprestakalli í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra.


Davíð Þór Jónsson verður áfram starfandi sem sóknarprestur við kirkjuna. Hjalti Jón hefur starfað sem æskulýðsfulltrúi við Laugarneskirkju síðastliðin fimm ár. Hann segir segir verkefni sín innan sóknarinnar ekki munu breytast mikið, en hann sér meðal annars um fermingarfræðslu og æskulýðsstarf.

„Það voru nú margir samverkandi þættir sem urðu til þess,“ segir Hjalti Jón, aðspurður um tilurð þess að hann fór í guðfræðina á sínum tíma.

„Ég hafði alltaf fundið að trúarþráðurinn í mér væri sterkur og sem barn mætti ég Guði jafn mikið í Turtles, NBA eða hverju sem er. Ég ætlaði þó alltaf að læra tónsmíðar og verða tónskáld. Á mínu síðasta ári í menntaskóla fór sú hugmynd að skjóta upp í kollinum á mér, að kannski myndi ég einhverntíman læra guðfræði. Mér þótti hún svolítið skrítin, en á sama tíma las ég mikið, bæði í biblíunni og öðrum fræðum, en gegnum það fann ég að vinna með andleg málefni og tilfinningalega úrvinnslu heillaði mig,“ segir Hjalti Jón, sem þó hélt sínu striki og fór í tónsmíðar.

„Í prófinu spurði Hilmar Örn Hilmarsson, allsherjargoði, hvort ég hefði eitthvað pælt í því að læra guðfræði. Ég hins vegar ákvað að skrá mig í ritlist og plataði vin minn Jónas Reyni Gunnarsson með mér. Um leið og ég var búin að senda inn skráninguna fann ég það; ég átti að fara í guðfræði. Ég sendi því tölvupóst og breytti skráningunni. Jónas Reynir fór hins vegar í ritlist og kláraði master í faginu og hefur síðan þá gefið út frábærar bækur.“

Fyrst og fremst þakklæti
Hjalti Jón segir vígsludaginn hafa verið ólýsanlegan. „Tilfinninarnar sem komu upp voru auðvitað fyrst og fremst þakklæti. Þetta var augnablik í mínu lífi þar sem ég mætti öllu mínu lífi. Öllu því sem hefur bærst og hrærst í mér, öllum mínum ótta um minn getuskort og minn vanmátt, sem svo sannarlega er enn til staðar og verður alltaf. Á sama tíma fann ég fyrir auðmjúku stolti, gagnvart því að sjá hvað ég hef lagt á mig. Það var bara gott að finna hvað þetta táknar fyrir mig.

Þar sem ég mætti öllu mínu lífi mætti ég um leið öllum mínum tengslum, fólkinu sem hefur reynst mér svo miklir kennarar og gefið mér svo mikið, alltaf mikið meira en ég hef beðið um og yfirleitt án þess að ég hafi þurft að biðja. Það er svo magnað að fá að staldra við og eiga svona dag. Að finna það svo sterkt í flæði hversdagsleikans að maður er ekki alltaf að átta sig á öllum þeim gjöfum sem manni eru gefnar.“

Ljósmynd: Sigríður Frímannsdóttir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.