„Þetta sýnir hvað tónlistarkennslan er sterk hérna fyrir austan”

Tveir austfirskir upprennandi tónsmiðir komust inn í Upptaktinn 2019 og tóku í síðustu viku þátt í vinnustofum í Hörpu og fengu leiðsögn um tónlistardeild Listaháskóla Íslands.

Með Upptaktinum, Tónsköpunarverðlaunum barna og ungmenna, var ungu fólki gefið tækifæri til að senda inn tónsmíð eða drög að henni og vinna markvisst úr hugmyndum sínum með fulltingi listamanna. Það voru þeir Róbert Nökkvi, 12 ára frá Vopnafirði og Patryk Lukasz, 15 ára frá Reyðarfirði, sem komust áfram frá Austurlandi. Nemendur í tónsmíðum við LHÍ eru leiðbeinendur í smiðjunum og aðstoða ungmennin við að útsetja verkin sín, sem verða flutt af fagfólki í Silfurbergi í Hörpu á barnamenningarhátíð í Reykjavík 9. apríl næstkomandi.

„Verk strákanna fengu mjög góða dóma og það er virkilega gleðiefni að tveir af tólf krökkum sem valdir eru inn í Upptaktinn komi að austan. Þetta sýnir hvað tónlistarkennslan er sterk hérna fyrir austan, og eflir okkur í því að gefa ekkert eftir. Oft eru krakkarnir á höfuðborginni með forskot þegar kemur að skapandi námi þar sem þau hafa oftar en ekki betra aðgengi að námi. Við viljum virkilega vinna að því að jafna þessi tækifæri og styrkja krakkana okkar hérna fyrir austan í því að skapa, eða eins og BRAS minnir okkur á: þora, vera og gera,” segir Karna Sigurðardóttir, forstöðumaður Menningarstofu Fjarðabyggðar.


Mikilvægt að eiga fyrirmyndir að austan
Sigurlaug Björnsdóttir frá Egilsstöðum er í flautunámi í LHÍ og er hluti af teyminu sem hefur leitt opnar skapandi smiðjur með krökkunum.

„Sigurlaug bauð Patryk og Róbert í heimsókn í tónlistardeildina og gaf þeim innsýn inní lífið í LHI. Hún mun leika á flautu á tónleikunum í Hörpu þann 9. apríl og það er líka mikilvægt að hafa svona flottar fyrirmyndir að austan með í verkefninu.”

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.