Telur göng undir Berufjörð skynsamlegustu nýframkvæmdina

Þingmaður Miðflokksins úr Norðvesturkjördæmi telur vert að skoða gerð tvennra jarðganga og færslu einnar brúar til að stytta leiðina milli Reykjavíkur og Austurlands um 40-60 kílómetra.

Birgir Þórarinsson vakti athygli á möguleikum í vegagerð í ræðu sem hann hélt við fyrstu umræðu um nýja samgönguáætlun sem lögð var fram á Alþingi í byrjun mánaðarins.

Birgir ræddi þar veginn yfir Öxi, sem hann sagði brattan og snjóþungan sem kallaði á mikinn kostnað við snjómoksturs því um veginn væri orðin mikil umferð, bæði fólks og vöruflutninga allt árið. Eins kom hann inn á nýju brúna yfir Berufjörð sem misjafnlega hefur gengið að reisa.

Enginn fjallvegur, enginn snjómokstur

Þingmaðurinn sagði að í samgöngumálum hefði verið of mikið um litlar lausnir sem dugi þokkalega í skamman tíma.

Birgir sagði að raunhæfasta lausnin í vegagerð um Berufjörð væri að leggja göng þvert undir mynni fjarðarins sem gætu stytt leiðina um hann um 26-28 km.

„Þetta er tvímælalaust skynsamlegasta framkvæmdin og sú arðbærasta á þessu svæði fyrir alla sem ferðast um landið. Enginn fjallvegur, enginn snjómokstur, lítil lenging til Héraðs, stytting til allra annarra fjarða og aukið umferðaröryggi,“ sagði Birgir.

Undir Berufjörð eða til Breiðdals?

Jarðgöng undir Berufjörð eru ekki ný hugmynd. Þau eru tekin til skoðunar í skýrslunni „Jarðgöng á Austurlandi. Mat á samfélagsáhrifum og arðsemi,“ sem skrifuð var af Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri í október 2005.

Þar kemur fram að göngin, frá Æðarsteinstanga úr suðri að Gíslatanga neðan Karlsstaða í norðri, yrðu 5 km löng og myndi kosta 7,6 milljarða núvirt. Þau eru meðal þeirra fimm jarðganga sem talið er að komi vel til greina að gera.

Annar kostur er reyndar talinn koma vel til greina í skýrslunni, sem eru göng milli Breiðdals og Berufjarðar með þverun fjarðarins. Með nýju brúnni er sú þverun þegar fyrir hendi. Göngin yrðu 4,5 km löng og myndu stytta leiðina fyrir Berufjörð og norður um 19 km miðað við þá verandi legu. Núvirtur kostnaður við göngin væri 5,6 milljarðar króna. Á þessu svæði myndu önnur ganganna útiloka hin.

Styttingar á Lónssvæðinu

Í ræðu sinni kom Birgir einnig inn á möguleika á styttingu hringvegarins frá Öræfum til Berufjarðar um 40 km með ýmsum framkvæmdum. Þar bendir hann á 3 km löng jarðgöng undir Lónsheiði myndu stytta leiðina um 12 km og fara framhjá Hvalnes- og Þvottárskriðum sem eiga það til að lokast vegna skriðufalla.

Sá gangakostur er í skýrslunni ekki talinn skipta miklu um samskipti byggða. Skýrsluhöfundar telja hins vegar að öryggismál geti vegið þyngra í umræðunni. „Það kann að gerast á næstu árum að þjóðfélagið sætti sig hreinlega ekki lengur við að Þjóðvegur 1. liggi um svo ótryggt svæði [Hvalnes- og Þvottárskriður] og þá eru göngin nánast eini kosturinn í stöðunni,“ skrifa þeir árið 2005.

Þriðja framkvæmdin sem Birgir tilgreindi sérstaklega í ræðu sinni var að færa brúarstæðið yfir Jökulsá í Lóni. Nýr 16 km vegur um Lón er á áætlun á þriðjatímabili framlagðrar samgönguáætlunar, 2029-2033. Með honum styttist hringvegurinn um 4 km og af leggjast sex einbreiðar brýr.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.