Orkumálinn 2024

Telur flygildi framtíðina í vöktun hafsvæða

Þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi hvetur til þess að Ísland gerist sem fyrst aðili að Geimvísindastofnun Evrópu. Slíkt skipti máli fyrir vöktun á því gríðarstóra hafsvæði sem umlykur landið. Flygildi sem er í tilraunaflugi á Egilsstöðum sé það sem koma skal.

Þetta kom fram í máli Njáls Trausta Friðbergssonar undir umræðum um störf Alþingis í síðustu viku en honum hafði þá hlotnast sá heiður að skoða flygildið, sem verður í prófunum á Egilsstaðaflugvelli fram á sumar.

Flygildið er hér á vegum Siglingaöryggisstofnunar Evrópu og er hér til að prófa það við erfiðar aðstæður.

Njáll Trausti benti á að vaxandi umferð væri á hafsvæðinu í kringum landið og beita þyrfti nýrri tækni til að vakta það.

„Mér segir svo hugur um að mannlausa flugvélin sem nú er á Egilsstaðaflugvelli sé forsmekkurinn að því sem koma skal á næstu árum. Hafsvæðið í kringum Ísland er gríðarstórt og slíkar vélar gætu nýst vel til eftirlits- og björgunarstarfa.

Að auki má nefna ýmis rannsókna- og vísindastörf sem tengjast Íslandi og hafsvæðinu í kringum landið. Reyndar er flugþol mannlausra flugvéla allt að tæpir tveir sólarhringar og þær gætu því farið býsna víða hér á norðurhvelinu í rannsóknarstörfum,“ sagði Njáll Trausti.

Hann hvatti ennfremur til þess að Íslendingar yrðu sem fyrst aðilar að Geimvísindastofnuninni og það verði tekið inn í vinnu við fjarskiptaáætlun sem stendur yfir og endurskoðun samgönguáætlunar í haust.

Mynd: Jens Einarsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.