Telja sveitarfélagið hafa takmarkað val um veglínu frá Fjarðarheiðargöngum

Ágreiningur er meðal framboðanna til sveitarstjórnar Múlaþings um hvaða leið sé hentugast að fara með nýjan veg frá væntanlegum Fjarðarheiðargöngum í gegnum þéttbýlið á Egilsstöðum. Flest framboðin telja lítið annað í boði en að fara eftir tillögu Vegagerðarinnar um suðurleið meðan Miðflokkurinn talar fyrir norðurleið.

Norðurleiðin liggur frá núverandi vegin á Egilsstaðanesi um Melshornsleið út fyrir þéttbýlið á Egilsstöðum en suðurleiðin verður innan við bæinn. Vegagerðin hefur lagt til að suðurleiðin verði farin en leiðirnar eru í umhverfismati.

Almennt virðast framboðin frekar hallast að suðurleiðinni en á ólíkum forsendum, samkvæmt svörum á framboðsfundi sem Austurfrétt/Austurglugginn stóð að með Múlaþingi síðasta laugardagskvöld.

Ívar Karl Hafliðason, sem skipar annað sætið hjá Sjálfstæðisflokki benti á að Vegagerðin hefði ekki enn lagt öll þau gögn fram sem sveitarfélagið þurfi til að taka ákvörðun. Atriði eins og öryggi mæli með suðurleiðinni en sveitarstjórn ætti að hafa tíma að minnsta kosti fram á haust til að taka ákvörðun.

„Við óttumst að það sé það sé orðið of seint að ræða þetta, að aðrir kostir myndu hægja á ferlinu og seinka göngunum,“ sagði Helgi Hlynur Ásgrímsson, oddviti Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Jónína Brynjólfsdóttir, oddviti Framsóknarflokks, sagði að í lögum um Vegagerðina væri ákvæði sem gæfi stofnuninni heimild til að krefja sveitarfélög um að greiða mismun á kostnaði milli þeirrar leiðar sem Vegagerðin veldi og þeirrar sem sveitarfélög krefðust. Í þessu tilfelli væri sá mismunur allt að 1,5 milljarðar króna.

„Okkur finnst við kannski ekki hafa mikið val. Norðurleiðin er vart svo verðmæt að við leggjum fram 1,5 milljarð út fyrir henni,“ sagði Jónína og bætti við að almennt virtist suðurleiðin ágætasti kostur. Ef hún gengi ekki væri hægt að aðra leið síðar, aðrar eins breytingar gerðu sveitarfélög að áratugum liðnum.

Erfitt að breyta síðar

Þröstur Jónsson, oddviti Miðflokksins, kom inn á leiðarvalið strax í framsöguræðu sinni. Flokkurinn hefur talað fyrir norðurleiðinni og lýst vilja til að nýta svæðið sem suðurleiðinni er ætlað að fara um undir íbúabyggð á „einu fallegasta byggingarlandi landsins.“

Hann sagði Jónínu slíta lagaákvæðið úr samhengi auk þess sem því hefði aldrei verið beitt. Hann benti á að til framtíðar yrði flugvöllurinn helst lengdur inn eftir og út frá því væri líklegast að Lagarfljótsbrúin færi út fyrir hann. Að auki bætti hann við að í núverandi skipulagi væri norðurleiðin inni en suðurleiðin ekki. Út frá því ætti Vegagerðin því að fara norðurleiðina.

Hann varaði við að erfitt yrði að snúa til baka síðar. „Stundum er eins og fólk sjái ekki langtímasýnina. Ef við klúðrum leiðarvalinu og förum að sunnanverðu verður það eitt stærsta skipulagsklúður sem nokkurn tímann hefur orðið.

Eyþór Stefánsson, sem er í öðru sæti Austurlistans, að að miðað við fyrirliggjandi upplýsingar mælti margt með suðurleiðinni, svo sem minni slysahætta. Við leiðarvalið þyrfti þó að huga að framtíðarstaðsetningu Lagarfljótsbrúar.

Í umræðum um Lagarfljótsbrúna voru frambjóðendur sammála um að hún þyrfti líklega að fylgja legu vegarins. Ívar Karl sagði að ekki væri endalaust hægt að geyma að finna henni stað og því þyrfti að hefja samtal við Vegagerðina. Helgi Hlynur sagði svarið við spurningunni um brúarstæðið hið sama og við fleirum spurningum, að gera þyrfti nýtt aðalskipulags. Sú vinna hefði þurft að vera hafin.

Heyra má nákvæmari svör framboðanna, sem og svör þeirra við öðrum spurningum, í spilaranum hér að neðan.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.