Telja loftræstingu við löndun hafa verið ófullnægjandi

Vinnueftirlitið telur að eitrun, sem starfsmenn við löndun kolmunna á Eskifirði í maí, megi rekja til þess að loftræsting hafi verið ófullnægjandi.

Þetta kemur fram í svari eftirlitsins við fyrirspurn Austurfréttar. Verið er að leggja lokahönd á lokaskýrslu eftirlitsins vegna atviksins en rannsókninni er lokið. Fimm starfsmenn voru sendir suður til Reykjavíkur undir læknishendur vegna eitrunarinnar. Þeir snéru aftur austur nokkrum dögum síðar.

Í svari Vinnueftirlitsins segir að einkennin sem starfsfólkið hafi fundið fyrir megi rekja til lofttegunda sem myndist náttúrulega í kolmunnanum við tilteknar aðstæður, sérstaklega þegar mikil áta er í honum eins og getur gerst þegar langt er liðið á vertíðina.

Þessar lofttegundir geti safnast fyrir neðst í lestinni sé loftræstingin ekki fullnægjandi. Þær eru þyngri en andrúmsloftið og því er starfsfólk útsett fyrir mengun af þeirra völdu.

Starfsmennirnir fundu ekki fyrir eitruninni fyrr en nokkrum tímum eftir að vinnu lauk, voru þá komnir heim og farið í sturtu eða lagst til hvílu. Lofttegundirnar mynda sýru þegar þær komast í vatn sem aftur veldur einkennunum sem starfsfólkið fann fyrir, kláða, sviða og slæmum útbrotum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.