Telja göng undir Mjóafjarðarheiði ekki leysa neinn vanda

Bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar telur hugmyndir um göng undir Mjóafjarðarheiði og þaðan til suðurs yfir í Fannardal í Norðfirði ekki vera þá samgöngulausn sem bæjarbúar þurfi á að halda.

Í bókun bæjarstjórnarinnar frá í síðustu viku er bent á að daginn fyrir fundinn hafi tvö meðalstór snjóflóð fallið í firðinum sunnanverðum rétt fyrir utan bæinn.

Bent er á að frá í nóvember hafi orðið verulegar truflanir á samgöngum bæði á Fagradal og Fjarðarheiði. Í síðustu viku lokaðist heiðin í á þriðja sólarhring og biðu bæði ferðamenn og flutningabílar eftir að komast til og frá Norrænu, auk annarrar umferðar til og frá bænum.

Í bókuninni segir að þetta allt sýni að samgöngur til og frá Seyðisfirði yrðu eftir sem áður jafn ótryggar og óöruggar ef göng undir Fjarðarheiði yrðu látin víkja fyrir lakari kostum svo sem göngum undir Mjóafjarðarheiði og beint til suðurs yfir í Fannardal.

„Bæjarstjórn minnir því enn og aftur á mikilvægi þess, þó ekki sé nema af framangreindum ástæðum, að tekin verði ákvörðun um tímasetningu framkvæmda við Fjarðarheiðargöng.

Samkvæmt núgildandi samgönguáætlun er gert ráð fyrir að Fjarðarheiðargöng verði næsta jarðgangaframkvæmd á eftir Dýrafjarðargöngum og því löngu tímabært að ákvarðanir liggi fyrir um upphaf framkvæmda.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar