Telja Fjarðabyggð ganga langt í skilgreiningu sjálfboðaliðastarfa

AFL starfsgreinafélag telur sveitarfélagið Fjarðabyggð ganga langt í skilgreiningu á því hvaða störf á vegum sveitarfélagsins fallist undir leyfileg sjálfboðaliðastarf.

Þetta kemur fram í bréfi sem stjórn AFL sendi frá sér í lok maí. Bréfaskriftir hafa verið milli félaganna frá því síðasta haust þegar AFL setti fram formlegar athugasemdir um vinnu sjálfboðaliða á vegum Fjarðabyggðar.

Í vor sendi Fjarðabyggð AFL erindi með lista yfir þau verkefni sem sveitarfélagið taldi geta fallið undir verksvið sjálfboðaliða en það hefur undanfarin ár unnið að fegrun umhverfis með hjálp alþjóðlegra sjálfboðaliðasamtaka.

Í svari AFLs kemur fram að það sé ekki hlutverk stjórnarinnar að samþykkja eða synja einstökum verkefnum. Hins vegar telji stjórn félagsins að Fjarðabyggð gangi nokkuð langt í túlkun sinni á hvaða vinna geti fallið utan starfa launafólks.

Tekin eru dæmi um endurheimt vistgerða, plöntun og grisjun trjáa og söfnun fræja sem falli vel að verkefnum sumarstarfsmanna, hvort sem þeir eru skilgreindir sem slíkir eða vinnuskólanemar.

Þá telji stjórnin að vinna einstaklinga með ríkisfang utan Evrópska efnahagssvæðisins sé alltaf ólögleg, hvort sem um er að ræða sjálfboðaliða vinnu eða launavinnu. Stéttarfélagið áskilur sér rétt til að grípa til aðgerða vegna vinnu sjálfboðaliða, jafnvel að innheimta laun vegna vinnu þeirra óski þeir eftir því.

Í bókun bæjarráðs Fjarðabyggðar óskar ráðið eftir fundi með fulltrúum AFLs til að fara yfir hlutverk og verkefni sjálfboðaliða.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar