Orkumálinn 2024

Telja ekki nóg að spara orku til að ná markmiðum um orkuskipti

Ráðherra og fulltrúar í starfshópi um vindorku á Íslandi virðast sammála um að byggja þurfi ný raforkuver eigi Ísland að geta hætt notkun jarðefnaeldsneytis, ekki dugi til að spara orku. Ráðherra aftekur að leggja sæstreng til að selja rafmagn úr landi.

Þetta var meðal þess sem fram kom á opnum fundi fyrir viku á Egilsstöðum um stöðuskýrslu starfshópsins. Þótt hann fjallaði um vindorkuna sem slíka er erfitt að slíta hana alfarið frá umræðu um raforkuöflun landsins, enda markmið ríkisstjórnarinnar að nýta hana til að auka raforkuframleiðslu til að geta síðar hætt notkun jarðefnaeldsneytis.

Í stöðuskýrslu hópsins segir að þótt samkvæmt skipunarbréfi sé honum ætlað að einblína á vindorku þá hvetji hann stjórnvöld til að huga heildstætt að orkukerfinu. Þar þarf meðal annars að huga að orkugjöfum sem halda uppi framleiðslu þegar vind skortir.

Á fundinum í síðustu viku var meðal annars spurt út hvort ekki væri hægt að spara í orkukerfinu frekar en bæta við virkjunum. Nefnt var notkun í rafmyntir og stóriðju, þar sem því var haldið fram að orkunotkun íslenskra álvera væri 5% meiri en í Noregi. Upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls, sem staddur var á fundinum, svaraði að samanburðurinn væri ekki réttur, norsku tölurnar nærðu aðeins til kerskála meðan í íslensku tölunum væru steypuskálar teknir með.

Stjórnvöld reyna að draga úr rafmyntagreftri


Stóriðjan er hins vegar stærsti notandi raforku hérlendis. Samkvæmt tölum í skýrslu starfshóps um áskoranir í orkumálum frá í fyrra notar málmvinnsla 73% allrar raforku hérlendis. Þá nota gagnaver 4%. Notkun í annarri atvinnustarfsemi er 12% en almennt notkun heimila 5%.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsmálaráðherra sagði að þótt íslensku álverin hættu starfsemi myndi það vart bæta ástandið í heiminum því álið yrði þá framleitt annars staðar með verri orkugjöfum fyrir utan áhrif sem það hefði á efnahag og atvinnu fólks.

Hins vegar væri unnið að því að „ýta út rafmyntagreftri,“ sem mun vera stór hluti gagnaveranna „innan ramma laganna“. Þá sagði Guðlaugur Þór að engar áætlanir væru um að auk hann.

Þarf verðið að hækka til að orkan verði spöruð?


Hilmar Gunnlaugsson, lögmaður á Egilsstöðum og formaður starfshópsins, sagði að árangur hefði náðst í orkusparnaði í Noregi. Ástæðan væri hins vegar hækkandi raforkuverð, þar sem Norðmenn eru tengdir evrópska orkumarkaðinum og selja mikið rafmagn þangað sem aftur hefur áhrif á heimamarkaðinn. Hann sagði þó þörf á umræðu um hvort eðlilegt væri að raforkuverð hérlendis hækkaði þannig hvati myndaðist til sparnaðar hjá notendum.

Úr sal var á móti bent á að hærra orkuverð kæmi á ólíkan hátt niður á landsmönnum, verst þeim sem búa á svæðum sem ekki hafa hitaveitu.

Guðlaugur Þór sagðist ekki vilja tengjast evrópska orkumarkaðinum í gegnum sæstreng. „Ég vil ekki sjá sæstreng vegna þessa. Orkuverð í Noregi er hátt því þeir flytja út mikla orku og þurfa að vera með jafnt verð en eru á sama tíma að rembast við að greiða út arð. Við erum ekki að fara að tengja okkur við Evrópu, það verður ekki gert á minni vakt.“

Þjóðarsamtal um lausnir í stað jarðefnaeldsneytis


Í ræðum og svörum bæði ráðherra og starfshópsins, sem auk Hilmars var skipaður þeim Kolbeini Óttarssyni Proppé og Björt Ólafsdóttur, virtist samhljómur um að orkusparnaður væri, eins og vindmyllurnar og fleiri aðgerðir, aðeins hluti af lausninni til að skipta út þeirri 1,5 milljón tonna jarðefnaeldsneytis sem Íslendingar nota. „Það er algjört markmið að fara betur með orkuna en það er líka útilokað að ná þessu markmiði án þess að nota grænu orkuna,“ sagði Guðlaugur Þór.

Í fyrrnefndri skýrslu um áskoranir í orkumálum er gert ráð fyrir að orkuframleiðsla Íslands þurfi að aukast um 13-24 TWst. fram til ársins 2050, meðal annars til að ná markmiðinu um orkuskipti. Þar er þó einnig sett fram sýn náttúruverndarsamtaka um orkuskipti án verulegrar viðbótarorku. Byggir hún á að álverin noti glatvarma eða lokað verði í Straumsvík. Þá er einnig reiknað með að landsframleiðsla á mann aukist ekki.

„Ég held það væri vel á að setja neysluvenjur og orkusparnað á dagskrá,“ sagði Björt. „Verkefnið er margþætt. Það þarf líka að horfa á orkusparnað, breyttar neysluvenjur. Ef viljum verða kolefnishlautlaus, hvernig náum við því. Við þurfum þjóðarsamtal um loftslagsmál og lausnir, ekki bara hve margir séu á móti ákveðinni lausn,“ sagði Kolbeinn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.