Tekur tíma að læra á hlíðina á ný

Íbúar í efstu byggðum Seyðisfirði mega á næstunni vænta þess að þurfa að rýma hús sín þegar stórrigningar eru í nánd. Tíðni rýminga mun minnka aftur þegar reynsla verður komin á hlíðina fyrir ofan byggðina og ný mælitæki sem vakta hana.

Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Hörpu Grímsdóttur, fagstjóra á ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands, á íbúafundi í gær. Fundurinn var haldinn til að fara yfir stöðuna á Seyðisfirði eftir skriðuföllin þar um miðjan desember og rýmingu um síðustu helgi.

Ekki hefur orðið vart við ný skriðuföll og óveruleg hreyfing mælst á hlíðinni síðan fyrir jól, þrátt fyrir úrkomu- og hlákudaga. Talið er að jarðlög séu að mestu sest í skorður og nýtt úrkomutímabil þurfi að koma þeim af stað, þótt alltaf geti hrunið aðeins úr skriðusárum.

Mælingar auknar verulega

Veðurstofan hefur að undanförnu unnið að því að koma upp nýjum mæli- og vöktunartækjum. Búið er að setja upp sjálfvirka alstöð sem mælir spegla á 30 mínútna fresti og sendir hún aðvaranir á sérfræðinga á vakt ef hreyfingar fara yfir ákveðin mörk.

Þá er búið að bæta við þriðja sjálfvirka úrkomumælinum í firðinum, en fyrir voru mælar í kaupstaðnum og Vestdalseyri. Harpa sagði mikinn mun geta verið á úrkomu milli svæða í firðinum og væri nýja mælinum í Neðri-Botnum ætlað að mæla innstreymi vatns í hlíðina. Munurinn milli svæða flækir einnig verulega veðurspár.

Í þessari viku er stefnt á að hefja uppsetningu GPS stöðva og verið er að skoða togmæla og bergvíxlmælingar, en til stendur að leigja slíkar stöð erlendis frá. Þá er horft til þess að bora djúpar holur í hlíðina og setja í þær síritandi aflögunarmæla sem geta sýnt hreyfingar í rauntíma á talsverði dýpi.

Nær öll þessi tæki eiga það þó sameiginlegt að einhver tími þarf að líða áður en mælingar úr þeim eru orðnar samanburðarhæfar, það er að hægt sé að meta hvað teljist eðlileg hreyfing á hlíðinni og hvað ekki. Á meðan svo er verður rýmt oftar á Seyðisfirði í varúðarskyni en síðan sjaldnar þegar viðmiðunargildin hækka.

Fjölgað á vaktinni

Auk mælitækjanna er búið að bæta í vöktunina á ofanflóðadeild Veðurstofunnar. Áður voru þar fjórir sérfræðingar sem gengu snjóflóðavaktir en í haust bættust fjórir nýir við. Tveir eru á vakt hverja viku, einn reyndur og annar nýr auk þess sem sá þriðji er á bakvakt. Ef óvissustigi hefur verið lýst yfir vegna snjóflóða eru tveir á bakvakt en skriðusérfræðingur ef fylgjast þarf með skriðum.

Við þennan hóp bætast síðan athugunarfólk á viðkomandi stað, þannig að 4-6 manns eru að störfum ef hætta er á ofanflóðum. Þá er til taks sérfræðingur í vörnum byggða.

Fyrir Seyðisfjörð eru nú til staðar tveir sex manna hópar. 1-2 fylgjast með mælingum en hinir vinna að mælingum, athugunum og uppsetningu tækja. Í máli Hörpu í gær kom fram að auga væri ekki aðeins haft með Botnum og Þófum, þekktustu skriðusvæðunum, heldur væri einnig horft upp í Þelaurð ofan Þófanna.

Fyrstu drög hættumats að verða klár

Harpa sýndi á fundinum í gær uppkast Veðurstofunnar að rýmingarkorti fyrir Seyðisfjörð. Það verður áfram unnið með yfirvöldum eystra og rýmingaráætlun gerði í framhaldinu. Þá er verið að endurskoða hættumat fyrir fjörðinn allan en svæðið milli Stöðvarlækjar er þar í sérstökum forgangi og vonast til að fyrstu niðurstöður þess verði kynntar fyrir sveitarstjórn Múlaþings í vikunni.

Á fimmtudag í síðustu viku var svæðið í kringum stóru skriðuna rýmt og hreinsunarstarfi hætt um tíma vegna gruns um að sprunga í hlíðinni hefði stækkað. Harpa sagði að við vettvangskönnun hefði komið í ljós að sprungan hefði ekki stækkað heldur ásýnd hennar breyst við að sprungubarmurinn hefði hreinsað sig með því að moldarbarð væri komið þar sem áður hefði gróður legið yfir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.